Hörgársveit lækkar gjaldskrár

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundi sínum 21. mars 2024 að í tengslum við kjarasamninga verði gjaldskrár er varða leikskóla og grunnskóla lækkaðar úr því að hækka um 4,9% milli áranna 2023 og 2024 í að hækkunin verði 3,5%. Þessi breyting tekur gildi 1. apríl 2024.

Bókun sveitarstjórnar:
6. Samband ísl. sveitarfélaga, erindi vegna kjarasamninga
Lögð fram erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem meðal annars er áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024.
Sveitarstjórn Hörgársveitar fagnar því að aðilar á vinnumarkaði hafi sameinast um skynsamlega langtíma kjarasamninga með áherslu á minni verðbólgu, lægri vexti, aukinn fyrirsjáanleika og þar með að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Sveitarstjórn minnir á að Hörgársveit tók þegar í fjárhagsáætlun ársins 2024 ákvörðun um að gjaldskrár myndu hækka minna en spár um þróun verðlags gerðu ráð fyrir.
Sveitarstjórn samþykkti að í tengslum við kjarasamninga verði gjaldskrár er varða leikskóla og grunnskóla lækkaðar úr því að hækka um 4,9% milli áranna 2023 og 2024 í að hækkunin verði 3,5%. Þessi breyting tekur gildi 1. apríl 2024.
Sveitarstjórn lýsir vilja til að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskóla frá haustinu 2024 náist ásættanleg niðurstaða um útfærslu þess og vinna áfram að öðrum þáttum samninganna sem snúa að sveitarfélögunum. Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi þessara verkefna í samræmi við væntanlegar leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem verða í kjölfarið tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.