Emil Petersen

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Emil Petersen

(Hans Peter) Emil Petersen

 

Emil Petersen var fæddur á Akureyri árið 1866. Foreldrar hans voru Hans Peter Emil Petersen beykir á Akureyri og barnsmóðir hans Guðrún Jónsdóttir saumakona á Akureyri. Emil var bóndi í Bakkaseli og á Gili í Öxnadal, síðar á Gili í Glerárþorpi á Akureyri. Hann dó árið 1936.

 

Emil var faðir Tryggva sem skrifaði bókina um Fátækt fólk.

 

 

Stökur

Mjög er ævi kyljan köld,

kvíða sár og nöpur.

Ljósið mitt er lítið í kvöld

lundin sár og döpur.

 

 

Safnað hef ég aldrei auð

unnið þreyttum mundum.

Drottinn hefur daglegt brauð

dregið við mig stundum.

 

 

Sólin valla sefur blund.

Svanir snjallir kvaka.

Hlustar fjall og fífusund.

Fuglar allir vaka.

 

 

Sumum mundi sýnast ljótt

sem ei undur væri.

Hlýju sprundi hjá í nótt

hér ef blunda færi.

 

 

 

Þó að víða vinda hljóð

vilji lýði þreyta.

Oft er blíðan undur góð

inn um hlíðar sveita.

 

 

Veislu halda vil eg hér,

verma kaldan bæinn.

Því skal tjalda til sem er

á töðugjaldadaginn.

 

 

 

Kveðið um skáldalaun

 

Auraleysi þreytir þraut,

það er gömul saga.

Ég hef aldrei ort fyrir graut

alla mina daga.