GALMASTRÖND

Hörgárdalur byrjar við Reiðholt. Ströndin þar fyrir utan að Hillum heitir Galmaströnd. Eins og Galmastrandarnafnið er talið hér, fellur það þó ekki alveg saman við það, sem svo var kallað í fornöld, því að þá var hún talin milli Þorvaldsdalsár og Reistarár. Ytri hluti þessa svæðis að Hillum er nú ætíð talinn til Árskógsstrandar, enda er það fullkomlega eðlileg skipting. Ef hins vegar er haldið fast við innri mörk Galmastrandar við Reistará, sem að vísu eru óeðlileg með öllu, verða þeir tveir bæir, sem þar eru fyrir innan að Reiðholti utan byggðarlaga. Til Hörgárdals geta þeir ekki talist, og því er réttmætt að láta Galmaströnd ná að Reiðholti. 

Fjöllin fyrir ofan Galmaströnd eru framhald Hörgárdalsfjalla. En skörðin eru færri, og lengri, sléttar brúnir í fjallsröðlunum. Norðan að Hofsskarði liggur Hvammsfjall að Reistarárskarði. Þá tekur við Reistarárfjall og Kötlufjall nyrst; nær það út með syðri hluta Árskógstrandar að mynni Þorvaldsdals.

Reistarárskarð er breitt og alldjúpt. Drag liggur suður úr því að baki Hvammsfjalls, og heitir það Sperðill, en norðvestur úr því liggur drag ofan í botn Mjóadals, er liggur ofan í Þorvaldsdal. Úr skarðinu fellur Reistará, en þegar niður á jafnsléttuna kemur, heitir hún Pálmholtslækur. Þorvalds- eða Þórhallsskarð heitir grunnt skarð fyrir ofan Kjarna.

Galmaströnd er fremur stutt, tæpir 10 km. En undir hinni háu og bröttu fjallshlíð hefir skapast allbreitt undirlendi milli fjallsrótanna og sjávar. Bæjaröð þétt liggur með fjallinu og önnur strjálli með sjónum. Mestur hluti láglendisins er mýrlent og helst svo einnig allhátt upp eftir hlíðum. Fyrir norðan Pálmholtslæk rísa upp háir ásar, er Bakkaásar heita. Hæst á þeim ber Bjarnarhól, 91 m. Eru ásar þessir sviplíkir ásunum fyrir innan Hörgá, en hærri. Milli þeirra og fjallsins skapast dalverpi, og standa bæir báðum megin í því. Nyrst enda Bakkaásar í háum og snarbröttum sjávarbökkum, er Arnarnessnafir heita, kenndar við bæinn Arnarnes, sem stendur þar vestan við undir ásunum norðarlega. Í nöfunum ganga klettahleinar í sjó fram, en ofan á þeim hvíla miklir jökulruðningar. Helst er því svo að sjá sem meginefni ásanna séu fornir jökulruðningar, er hvíli á blágrýtisundirstöðu. Hefir meginjökull Hörgárdals líklega staðnæmst hér á sínum tíma. Vestan undir nöfunum skerst inn dálítil vík, sem Arnarnessvík heitir; fyrir botni hennar er tjörn, sem aðeins er skilin frá sjónum með mjóu eiði. Þess má  sjá merki, að ásarnir hafi verið eyja þegar sjór stóð hærra, við lok ísaldar. Norðan við Arnarnessvík þrýtur undirlendið. Þar stendur Fagriskógur, nyrsti bær á Galmaströnd.

Í fjallinu hér fyrir ofan eru hjallar margir, og hallar þeim öllum til suðurs. Mestur þeirra er Hrossahjalli, með hamrabelti í brúnum; annars eru brúnir flestra þeirra meira og minna grónar. Utan við Fagraskóg rísa hjallar þessir bratt frá ströndinni, og eru þar allháir sjávarhamrar en undirlendi ekkert. Þar heita Hillur og er réttnefni. Hillurnar loka útsýn innan með sjónum, og þar er nú talið að Galmaströnd ljúki; þar er einnig hreppamörk og sókna.

Strandlengja Galmastrandar er lítt vogskorin. En undan utanverðum ásunum gengur fram dálítil eyri; er það Hjalteyri, Efst á eyrinni er alldjúp tjörn, en sjálf er eyrin lítil að flatarmáli, en brekka snarbrött fyrir ofan hana. Nokkru fyrir aldamótin 1900 hófst byggð á Hjalteyri. Varð hún þá verslunarstaður og útgerðarstöð. Um skeið var þar síldarstöð mikil, og þyrptist þangað fjöldi fólks á sumrin, bæði innlendir menn og erlendir. Var þar þá síldarsöltun. Sjósókn var þaðan ætíð nokkur.

 

Úr ritinu Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, frá Hlöðum, fyrri hluti sem kom út 1949.