Árni Júlíus Haraldsson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Árni Júlíus Haraldsson

var fæddur í Ytri-Skjaldarvík 5. október 1915, dáinn 25. nóvember 2002. Árni var sonur hjónanna Katrínar Jóhannsdóttur og Haraldar Pálssonar, búandi hjóna á Dagverðareyri, Ytri-Skjaldarvík og Efri-Rauðalæk. Árni ólst upp hjá foreldrum sínum til 12 ára aldurs, en missti móður sína árið 1927. Eftir það dvaldi hann hjá systur sinni, Elísabetu á Öxnhóli, og var svo í vinnumennsku á nokkrum stöðum. Hann kvæntist Aðalheiði Ólafsdóttur (f. 3. mars 1910 – d. 29. okt. 1963) frá Dagverðartungu árið 1938 og eignuðust þau 5 börn. Þau voru við búskap í 25 ár, í Lönguhlíð, Ási og Hallfríðarstöðum þar til Aðalheiður lést 1963, en Árni bjó síðan ekkjumaður í 5 ár. Flutti hann þá til Akureyrar og gerðist starfsmaður KEA.

 

Ort um ellina:

Eg þó hnellinn ennþá sé,

oft samt hrelling kenni,

því elli fellir alla á kné,

enginn skellir henni.

 

Hvað finnst manninum skemmtilegast?

Að sitja hjá ástmey í svölum lund,

að sofna og láta sig dreyma,

að fleygjast á spretthörðum fáki um stund,

að ferðast, en vera þó heima.

 

Árni gekk á eftir manni á götu:

Hans er dágott heilabú

held ég dæmin sanni,

en það má leiða keflda kú

um klofið á þessum manni.

 

Staka:

Rjóð í kinnum, göfug, góð,

góðan kynnti og dýran óð,

óðinn fagra, ljúfust ljóð,

ljóðin, sem að geymast þjóð.