Aðalheiður Jónsdóttir

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Aðalheiður Jónsdóttir

f. 7. mars 1893, d. 3. október 1976

Aðalheiður var húsfreyja, bóndi og ljósmóðir á Barká í Hörgárdal frá 1923 til 1950. Hún var gift Manasesi Guðjónssyni bónda (f. 14. maí 1891, d. 9. janúar 1938). Aðalheiður var góður hagyrðingur og hafði gaman af kveðskap. Eftir að hún hætti búskap fór hún á milli bæja og spann og prjónaði fyrir konur og vann ýmis önnur verk. Hún þótti einnig mjög liðtæk við spilamennsku. Hún var glaðlynd kona og glettin og lagði sig fram við að ganga fram af fólki með ýmsum tiltektum sínum.

Einu sinni fór Aðalheiður ásamt vinkonu sinni Sigríði Ágústsdóttur á Steðja í heimsókn til Hallgríms á Vöglum sem bjó þar einhleypur með fóstursyni sínum í gamla torfbænum á Vöglum talsverðan spöl frá þjóðveginum. Hallgrímur vildi allt fyrir gesti sína gera, sauð handa þeim egg og gaf þeim kaffi en hann gat ekki boðið þeim á snyrtinguna því hún fyrirfannst auðvitað ekki en dró fram koppinn sinn og bauð þeim. Um heimsóknina orti Aðalheiður:

 

Gott var hjá þér, Grímur minn,

glæný egg að éta

en keraldsvíðan koppinn þinn

kunnum við ekki að meta.