Ingimar Friðfinnsson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Ingimar Friðfinnsson

fæddist 3. júlí 1926 að Flögu í Hörgárdal. Hann fluttist ungur með foreldrum sínum og fjölskyldu að Baugaseli í Barkárdal og ólst þar upp. Kona hans er Guðný Skaftadóttir frá Gerði í Hörgárdal. Þau stofnuðu heimili á Akureyri. Ingimar lærði húsgagnasmíði á Valbjörk og vann við smíðar lengi síðan. Hann var kennari við Iðnskólann á Akureyri í nokkra vetur og var umsjónarmaður við Háskólann á Akureyri til starfsloka árið 1996. Þau hjónin eru búsett að Hjallalundi 18 á Akureyri.

 

Á göngu um aðalgötu stórborgar:

Eigi bætir þysinn þar,

þrýtur kæti og friður.

Nú á stræti stórborgar

stíg ég fæti niður.

 

Mjög að þrengir mistrið oft,

- mollan lengi nærist.

Allt er mengað andrúmsloft

enginn strengur bærist.

 

Hróp og org af ýmsri gerð

ymja um borgarstræti.

Vítt um torg í fjöldans ferð

fylgja sorg og kæti.

 

Lýðsins rót mig villir vart,

verð því móti að halda.

Undir fótum hrjúft og hart

hlymur grjótið kalda.

 

Mengun grá um suðrið sest,

- sjónrönd frá er vikin.

Úr norðri dái og met ég mest

miklu, háu blikin.

 

-------------------

 

Merkra halla máttug gerð

myndir snjallar geyma;

daga alla samt þú sérð

sólarfjallið heima.

 

Ein þar ljóðar lind í hlíð

ljúfu hljóði sínu;

hennar óður alla tíð

er í blóði þínu.

 

 

Höfundur fletti dagblöðunum og þótti nóg um auglýsingaskrum og sýndarmennsku:

Fjölmiðlar í sarpinn sinn

safna þar til springur blaðra.

Þótt kiknað hafi Mogginn minn,

meira aðrir slúðra og þvaðra.

 

Smátt í blaði - Frétta finn,

- fletti því af gömlum vana,

en ekki bregst hann Mogginn minn,

- með honum drep ég geitungana.

 

Þegar snillingarnir í vísnahorni Moggans höfðu skalla manna að yrkisefni:

Mínum skalla skýla kann,

þótt skriki í halla fætur.

Eg er bralla ögn við þann

allt sem falla lætur.

 

Þegar keypt var ný íbúð og hin, sem fyrir var, seldist ekki:

Engum kvíði áföllum,

er því sæll og glaður.

Telur ei neitt í tíköllum

tveggja húsa maður.

 

Þegar Hannes Hólmsteinn lenti, viljandi eða óviljandi, í fjölmenni (mótmælendum) sem hafði uppi hark og háreisti á Austurvelli:

Heyrðust sköll frá hásum kór.

Hreint með öllu ókvíðinn,

yfir völlinn einn hann fór

innan um tröllalýðinn.

 

Að lokinni kirkjugöngu:

Einn ég sat á sjötta bekk,

sönn var boðuð trúin.

Til sakramentis síðan gekk,

- svo var messan búin.

 

Á ferð um Færeyjar. Er komið var í náttstað ákvað hópur ferðafólksins að fara á ball:

Gjálífis þau ganga stig

gleðinnar að teiti.

Náttúran er söm við sig

og syndin á næsta leiti.

 

Maður nokkur kom í Baugasel og hafði farteski sínu hluti sem þurftu endurbóta við. Var hann með tvo til reiðar og fór mikinn. Greiðlega gekk að leysa vanda gestsins og snéri hann hinn glaðasti til síns heima. Ekki löngu síðar barst út, eftir manni þessum, fremur nöturleg lýsing á Barkárdalnum:

Fánýtt þjark ei mannsins met;

miður varkár talinn,

ferða í slarki leka lét

last um Barkárdalinn.

 

Efldum hestum skellti á skeið

skemmtun mesta ei smáði.

Í geði hresstur greitt svo reið;

greiða bestan þáði.

 

Síðan blendinn gestur gaf

gust frá lendaranni.

Fjöllin kenndu óþef af

undirlendismanni.

 

Össur Skarphéðinsson og Gísli Marteinn mættust í Kastljósi og snérist umræðan brátt aum Baug og Bónus. Össur sótti en Gísli varðist af hörku og taldi Jóhannes í Bónus oft ranglega dæmdan:

Ugglaust margur á hann laug

í auraþrasi og vési.

En aldrei get ég geislabaug

greint yfir Jóhannesi.

 

Hópferð um Þýskaland: Breytt var frá áætlun, rútan yfirgefin og farið gangandi eftir löngum og fallegum skógarstíg:

Við mér fögur brostu blóm,

birtist enginn vandi,

er ég gekk á inniskóm

eftir Þýskalandi.

 

Á Hveravöllum varð höfundi gengið þar til sem ungt par var í innilegum faðmlögum:

Holdsins köllun hlýða menn,

- hlakkar í tröllum frera. -

Sína Höllu elska enn

inni á völlum - Hvera.

 

Á kjördag 25. apríl 2009:

Enn í morgun austankorgur ók í skýjum.

Ekkert spyrst til vorsins vinda,

veltist þoka um fjallatinda.

 

Eins ég segi, ei var degi illa varið.

Um Kjarna gekk í kalsahrynu

og kaus á móti íhaldinu.

 

Haustdægur: Þegar þrestirnir hreinsuðu berin af reynitrénu:

Á garðsins trjám er gulnað skraut,

genginn blámi af lindum.

Hjúpar þámi himinskaut,

haustsins grámi á tindum.

 

Þrestir hér um víðan völl

vappa, mér til sóma.

Reyniberin eta öll

eins og smér og rjóma.

 

Ákaft tístir ungfuglinn,

allur á blístri hjakkar.

Berjum þrýsta í belginn sinn

brúnir ístrupjakkar.

 

Svo með snilli, dáð og dug,

draums á gylliskýi;

héðan villi hefja flug

frá haustsins fylliríi.

 

Starfsmannabúðir á Kárahnjúkum voru í fyrstu af vanefnum gerðar, og í norðanhríð skóf inn undir þökin. Af því kom síðan "innanhúslekinn" eins og hjá Bjarti í Sumarhúsum. Síðan gerðist það að leka tók niður í ræðustól Alþingis.

Í vosi ára þreytist þak,

- þingmenn hárin strjúka.

Straumur tára úr lofti lak

líkt og við Kárahnjúka.

 

Á afmælisdegi höfundar 3. júlí 2007:

Ég hef sopið svalt og heitt,

svona árin liðið.

Sigrað þrepið ennþá eitt

upp í Gullna hliðið.

 

Horft til Kerlingar, sem er hæst fjalla við Eyjafjörð:

Ugglaust hressa myndi mig,

margt og ganga í haginn,

ef ég færi uppá þig

einhvern sunnudaginn.

 

Vorferð Karls II. 2010 var farin til Siglufjarðar og fór ferðafólkið í kaffi á Hannes Boy. Til meðlætis var m.a. brúnkökustykki með súkkulaðikremi á, vel útilátið og girnilegt, og segir hér af viðureigninni við köku þessa.

Hún beið mín á diski er brölti ég inn,

svo bústin að mér þótti undur,

og hástemmdur fagnaði hugur minn.

Er ég hjólaði í hana fjórtánda sinn,

þá hafði ég helvítið sundur.

 

 

 

 

Til baka í yfirlit vísnasafnsins