Friðbjörn Björnsson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Friðbjörn Björnsson

var fæddur 26. september 1873 að Saurbæ í Hörgárdal. Foreldrar hans voru Björn Jónsson af Hillnaætt og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Faðir hennar var húnvetnskrar ættar en móðirin hörgdælsk. Fullsannað þykir að móðirin hafi verið dóttir Jóns skálds Þorlákssonar á Bægisá.

Friðbjörn kvæntist árið 1896, Stefaníu Jónsdóttur Þorfinnssonar úr Myrkárdal og var móðuramma hennar hin umrædda Myrkár-Helga. Þau Friðbjörn og Stefanía bjuggu fyrst að Barká við fátækt en tókst að brjótast til betri kjara og komust brátt yfir vildisjörðina Staðartungu í Hörgárdal, þar sem þau ríktu með höfðingsbrag allt til dauðadags. Friðbirni og Stefaníu búnaðist vel enda hjúasæl. Gestrisni þeirra var einstæð og sóttu menn til þeirra margra erinda, ekki síst til að hlýða á bragsnillinginn kunna. Urðu vísnavinir þar sjaldnast fyrir vonbrigðum; því væri vín á glasi mátti segja að bóndi mælti flest í stökum.

 

Hann lést 3. mars 1945.

 

Á  sjúkrahúsi:

 

Hér hef ég lengi legið,

 

langar og dimmar nætur.

 

Ennþá ekki þegið

 

afl til að rísa á fætur.

 

 

Þrautirnar oft mig þvinga,

 

þrotin er heilsa og kraftur.

 

Haltrandi kom ég hingað,

 

hálfdauður fer ég aftur.

 

 

 

Hollráð:

 

Gakktu státinn lífsins leið,

 

lítt mun grátur bæta.

 

Láttu kátur hverri neyð

 

kuldahlátur mæta.

 

 

 

Þrír hraktir menn og einn klepróttur hundur gengu í átt að Þinghúsinu í Kræklingahlíð. Friðbjörn átti þar leið framhjá ásamt Guðmundi á Þúfnavöllum. Guðmundur spurði hverjir mundu vera þar á ferð og svaraði Friðbjörn af bragði:

 

Þetta er Hlíðar-hreppsnefndin,

 

hún er að skríða í Kuðunginn.

 

Ekki er fríður flokkurinn.

 

Mér finnst hann prýða, hundurinn.

 

 

 

Ort um hélaðan glugga:

 

Litlu hrósi safnar sér

 

svakafenginn vetur,

 

þó að rós á gluggagler

 

grafi enginn betur.

 

 

Bóndi einn fékk orðu:

 

Karli til um krossin fannst,

 

hjá kónginum var hann fenginn.

 

En fyrir hvað sú vegsemd vannst

 

það vissi nú bara enginn.

 

 

Friðbjörn átti leið framhjá Miðhálsstöðum í Öxnadal og sá hvar Guðrún húsfreyja var við slatt í hrísmóa og beit illa hjá henni, en Lárus bóndi hennar lá þar hjá og dengdi ljá sinn. Skammt þar hjá var hundaþúfa. Hann kvað:

 

Ljótt er engið Lárusar,

 

lítið bítur spíkin,

 

hann er að dengja þessi þar,

 

þarna skítur tíkin.

 

 

Um apótekara, sem ekki vildi láta Friðbjörn hafa spíra:

 

Krepptar að mér krumlur skók,

 

kauðinn, einskis nýtur:

 

Húfa, skyrta , buxur, brók,

 

beinagrind og skítur.

 

 

 

Friðbjörn sá tvo misháa og misþrekna menn standa álengdar:

 

Það er skrýtin sjón að sjá

 

saman standa Björn og Fúsa.

 

Þetta minnir okkur á

 

útvarpsstöng og mjólkurbrúsa.

 

 

Friðbirni þótti við mann:

 

Eigðu lítið illt við mig,

 

annars þrýtur friður,

 

og ég hlýt að yrkja þig

 

í helvíti niður.

 

 

Kveðja til manns, sem orti á Friðbjörn:

 

Hjá þér finnst ei list í ljóði,

 

leikni fáir tala um.

 

Líka vinnst þér lítið, góði,

 

að loka á mér kjaftinum.

 

 

 

Víða um landið vísur mínar

 

vængjatökin reyna létt.

 

Hvað er að segja þá um þínar?

 

Til þeirra hefur enginn frétt.

 

 

 

 

Friðbjörn var á ferðalagi og mætti manni, sem rausaði mjög:
Mikið þvældi þornagrér,
þvaðri ældi fram úr sér.
Kjaftinn skældi, kjálkaber,
klárinn fældi undir mér.

Út af kosningum orti Friðbjörn þessa vísu:
Vina minna vitfirring
varla spáir góðu,
að kjósa og senda á Sambandsþing
sjálfsálit í skjóðu.

Og enn:
Illa kaustu, Manni minn,
mér þótti það skitið,
hvernig blessuð brjóstgæðin
bældu niður vitið.

Um ungling, Jóhann Sveinsson frá Flögu, sem var að reyna að kveðast á við Friðbjörn, kvað Friðbjörn:
Orða grófur, mér til meins,
mynda prófar bögu,
litli Jói, sonur Sveins,
sem að bjó í Flögu.

(Ólína Jónasdóttir á Sauðárkróki sendi Friðbirni eftirfarandi vísu:
Áður röddin æfð var snjöll
upp við hæðadrögin.
Nú eru gleymd og glötuð öll
gömlu kvæðalögin.)

Friðbjörn svaraði:
Meðan falleg ferskeytla
fjörgar æðaslögin
gleymast varla greiðlega
gömlu kvæðalögin.

Friðbjörn orti um Pétur Jónsson flutningabílstjóra frá Hallgilsstöðum:
Péturs er á hálsi haus
heldur illa skaptur.
Hann er næstum heilalaus
og helmingurinn kjaftur.

 

Önnur útgáfa af vísunni er svona:

Péturs er á hálsi haus
heldur illa skaptur.
Hann er næstum heilalaus
og hálft andlitið kjaftur.



Um Eggert Davíðsson frá Möðruvöllum samstarfsmann Péturs orti Friðbjörn:
Eggerts haus er ekki svona.
Innantómur satt er það.
Auragirnd, sú aldna kona,
er fyrir löngu sest þar að.

Mannlýsing:
Í viðskiptunum var hann fær,
vildi hjálpa snauðum.
Gekk þó af þeim oftast nær
efnalega dauðum.

Gjarnan vildi guði í vil
gefa smælingjunum.
Fékk bara aldrei tíma til
að taka af peningunum.

Þegar hann sagði sjálfur frá
sínum kostagrúa,
æði margur átti þá
örðugt með að trúa.

Og önnur mannlýsing:
Greind og sóma gersneyddur,
gerður úr tómu hrati,
grérinn skjóma grályndur,
Grímur hómópati.

(Einhver svaraði fyrir Grím:
Grímur marga bresti ber
og byrði synda þungu.
Barn hann þó í brekum er
hjá Bjössa í Staðartungu.)

Úr vísnasennu:
Hringanjótur víttu vart
vort þó harðni gaman.
Vertu fljótur, hnýttu hart
hendingarnar saman.

Hrós þitt rómast þú ef þá
þarft ei tóm að laga
strengja-hljóminn fluttan frá
fingurgómum Braga.

Hérna drjúgum, hringabör,
hættir þú að grobba
fyrst að lúinn karl í kör
kom þér nú í bobba.

Engin þvingun það er mér,
þegar kynngi staupahver.
Hagkveðlingaháttinn ber
hér að syngja fyrstan þér.

Háttum slyngur breyttu brags,
bragsnillingur kunni.
Átt að syngja aðra strax
undir hringhendunni.

Kolbeinsháttinn hérna sátt
heyrir þjóð, sem gefur hljóð.
Syng ég brátt með sinni kátt
sævarglóð á móti bjóð.

Saman flétta bragi ber
Braga nettum höndum.
Gaman þetta ekki er
undir sléttuböndum.

Eitt sinn hittust þeir Friðbjörn Björnsson í Staðartungu og Jóhannes Sigurðsson frá Engimýri. Friðbjörn ávarpaði Jóhannes:
Komdu hérna karlfauskur
kvæða vanur þófi.
Hann er orðinn haustlegur
hausinn á þér, Jói.

 

(Jóhannes svaraði:

Þeir sem eiga börn og bú

bognir af þreytu ganga.

Ég er orðinn eins og þú

ímugrár á vanga.)

Á spítalanum:

 

(eintal)

 

Langar mig að líða fljótt

 

langt á meðan aðrir sofa.

 

Allt er dapurt, dimmt og hljótt,

 

daufleg ertu, þögla nótt.

 

Hér er mínum hug órótt,

 

hörðum bundinn þrautadofa.

 

Langar mig að líða fljótt

 

langt á meðan aðrir sofa.

 

 

Gaman væri að fara á flug,

 

fljúga út í þögla geiminn,

 

vísa öllu illu á bug,

 

eiga til þess kraft og dug.

 

Alltaf hef ég á því hug,

 

aldrei verð ég nógu gleyminn.

 

Gaman væri að fara á flug,

 

fljúga út í þögla geiminn.

 

 

En til hvers er að óska sér

 

allra bestu lífsins gæða?

 

Langir dagar leiðast mér,

 

lífið fremur dauflegt er.

 

Út um þúfur alltaf fer

 

öll mín vonaljós að glæða.

 

Til hvers er að óska sér

 

allra bestu lífsins gæða.

 

 

Þó hef ég í öll mín ár

 

átt og geymt í fórum mínum

 

ótal vonir, ótal þrár;

 

þótt æði mörg sé löngu nár.

 

Oft var þeirra himinn hár,

 

hlógu þær við fóstra sínum:

 

Vonirnar sem öll mín ár

 

átti ég í fórum mínum.

 

 

Veslings björtu vonirnar

 

vaka bak við drauma mina,

 

að ég líkt og áður var

 

aftur stigi í fæturna.

 

Þráfalt gegnum þrautirnar

 

þær hafa sent mér geisla sína.

 

Veslings björtu vonirnar

 

sem vaka bak við drauma mina.

 

Inn í dulin draumalönd

 

dregst ég þegar svefninn kemur.

 

Þar mig engin binda bönd,

 

ég berst svo létt að furðuströnd.

 

Þá er eins og hulin hönd

 

hugann leiði, öðru fremur.

 

Inn í dulin draumalönd

 

dregst ég þegar svefninn kemur.

 

Vorvísur:

 

Eygló bræðir ís og mjöll

 

engjasvæðið lága,

 

dalir, hæðir, hálsar, fjöll

 

hjúp afklæðast snjáa.

 

 

Eins og kallað undan snjá

 

ásinn, hjallinn, bærinn,

 

þegar mjallar andar á

 

ylhýr fjallablærinn.

 

 

Sporaléttu lækjunum

 

líkar þetta veður,

 

af sér fletta ísþökum,

 

afli þéttu meður.

 

 

Óstöðvandi áin þá

 

út til stranda flytur,

 

kát, syngjandi, köld og grá

 

klaka-banda slitur.

 

 

Upp um hlíðar, út við sjá

 

ómar líða af kæti.

 

Blómin víða vekja þá

 

vorsins blíðulæti.

 

 

Fjörið þróast fer á ný,

 

fjalla gróa bringur.

 

Út um móa bí, bí, bí,

 

blessuð lóan syngur.

 

Hugann seiðir söngurinn

 

svo oss leiðist varla.

 

Ennþá breiðist ómurinn

 

inn til heiða og fjalla.

 

 

Hún fer nú um fjöllin frí,

 

faðmur hlúir breiður,

 

sinuþúfu sunnan í

 

sér að búa hreiður.

 

 

Spóans hvellu heyrast hljóð,

 

Háafellið lifir.

 

Sólin hellir geisla-glóð

 

græna velli yfir.

 

 

Brosum sunnu blíðlega

 

blómin kunna að taka.

 

Þúsund munnum þýðlega

 

þrestir í runni kvaka.

 

 

Álft sem þráir frelsi og frið

 

fjöllin á mun snúa.

 

Heiðabláu vötnin við

 

vill hún fá að búa.

 

 

Vetrar unna eftir þröng

 

enginn kunnað getur

 

vorblíðunni syngja söng

 

sólskríkjunni betur.

 

 

Stóðið glaða afrétt á

 

eigin traðir brokkar.

 

Sólbakaðir sýnast gljá

 

sílspikaðir skrokkar.

 

 

Lömb um grundir leika sér,

 

léttfætt skunda saman.

 

Þeirra lund það yndi er

 

eða stundargaman.

 

 

Fjallasali fagra um

 

fjölga smala-sporin.

 

Svona í dalasveitunum

 

sífellt tala vorin.

 

 

Gamlan nágranna, sem Friðbjörn átti í illdeilum við, kvaddi hann með þessum orðum:

 

Þegar þú kveður þessa sveit

 

þakinn lastamori.

 

Skilurðu eftir skítlegheit

 

skrifuð í hverju spori.

 

 

 

Haldið var búnaðarnámskeið í Eyjafirði og sóttu það bændur úr mörgum sveitum. Árni G. Eylands var aðalkennarinn. Einu sinni að loknum fyrirlestri, sem Árni hélt, spurðist bóndi einn, Stefán að nafni (almennt kallaður Stebbi Nikk), fyrir um það, hvort ekki mætti notast við hrúta handa geitum. Hann áleit að þessir búfjárstofnar væru skyldir mjög, en hinsvegar mikill kostnaðarauki að ala hafur, þótt menn vildu hafa fáeinar geitur í búi sínu. Friðbjörn var nærstaddur og kvað:

Hugsar Stebbi oft hlálega,

hlutdrægur til muna.

Hann vill láta hrútana

hafa ánægjuna.

 

Um Jóhann í Flögu:

Þitt ég hljóma heyri raus,

hálf-ófrómi drulluhnaus,

auman tóman hefur haus,

hjarta-, sóma- og ærulaus.

 

(fyrsta orð 3. hendingar er óljóst í handriti)

 

Um Sigmund í KEA:

Orðið flýtur okkur hjá,

einkis nýtur skolli,

hárið lítið hefirðu á

heimskum skítakolli.

 

Um Sigurgeir í Ásgerðarstaðaseli:

Lygi, svik og síngirni

sagt er að prýði Geira,

hordráp, þrjóska, þrællyndi,

þjófnaður og fleira. 

 

 

 

 

 

Til baka í yfirlit vísnasafnsins