Bægisárkirkja

Bægisárkirkja

Erindi sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur á 150 ára afmæli Bægisárkirkju 2. nóvember 2008.

Það er stórkostleg upplifun að fá að þjóna Bægisárkirkju á 150 ára afmæli hennar.  Við kirkjuna hafa þjónað margir merkir klerkar og er ég að sjálfsögðu fyrsta konan sem kemur í þeirra hóp.

Sagan segir að flestir prestanna sem þjónuðu Bægisá hafi tekið miklu ástfóstri við staðinn.  Til er ljóð eftir einn þessara presta séra Egil Ólafsson (um 1568-1641) sem hann orti þegar hann yfirgaf staðinn:

Blessuð vertu Bægisá,

bæn mín verði áhrinsspá,

aldrei sértu auðnusmá

upp frá þessum degi,

þó hverfi ég þínum húsum frá,

herrann gerði það forsjá,

óska ég þig öðlist sá,

er elskar Drottins vegi.

Einna þekktastu presta á Bægisá er séra Jón Þorláksson skáld (1744-1819).  Hann kom að Bægisá á aðventu 1784 og hélt staðinn til dánardægurs árið 1819.  Séra Jón var 16. Presturinn á Bægisá í lúterskum sið og var gott skáld og er þekktastur fyrir þýðingu sína á Paradísarmissi eftir enska skáldið John Milton (1608-1674) en hann var samtímamaður Hallgríms Péturssonar.  Þýðing Paradísarmissis þótti mikið þrekvirki og ljóðabálkurinn átti eftir að hafa mikil áhrif á íslensk skáld á nítjándu öld.

Arnljótur Ólafsson þingmaður var prestur á Bægisá frá 1863-1889.  Hann var áhrifamikill í þjóðmálum. Hann var frumkvöðull að stofnun Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum 1880.

Árið 1890 flutti séra Theodór Jónsson (1866-1949) að Bægisá og var þar prestur til 1941 eða í 51 ár. Séra Theodór var síðasti presturinn sem sat á Bægisá, en við starfslok hans varð Bægisá annexía frá Möðruvöllum.  Kona sr. Theódórs var Jóhanna Gunnarsdóttir en hún var eina barn sr. Gunnars Gunnarssonar, sem var bróðir Kristjönu Gunnarsdóttur amtmannssfrúar á Möðruvöllum.  Jóhanna ólst upp á skólasetrinu á Laugalandi og stundaði nám við kvennaskólanna þar1885-1887.  Hún stundaði nám í orgelleik í Reykjavík og var kennari við kvennaskólann á Laugalandi 1893-96.

Árið 1898 gekk Jóhanna Gunnarsdóttir að eiga sr. Theódór Jónsson á Bægisá.  Theódór varð stúdent frá Lærða skólanum 1886 og stundaði nám við Prestaskólann og útskrifaðist þaðan  1888.  Hann var vígður til Bægisársóknar 1890 og þjónaði þar í 51 ár eins og áður sagði.  Sr. Theódór var grandvar maður, hlédrægur, hægur í framgöngu, elskaður og virtur af sóknarbörnum sínum.  Jóhanna var tónhneigð.  Auk þess sem hún lék á hljóðfæri hafði hún mikla og fagra söngrödd.  Ungur ferðamaður kom veðurhrakinn að Bægisá.  Þegar hún hafði hlynnt honum og gefið honum að borða bauð hún honum til stofu til söngs.  Sungu þau saman góða stund.  Ungi maðurinn fór hress af þeim fundi, bæði til sálar og líkama.

Kirkjusaga:

Kirkja helguð Jóhannesi skírara allt frá upphafi kristni og prestssetur allt til ársins 1941.  Kirkjan sem var á undan þeirri sem á afmæli í dag var torfkirkja byggð 1763.  Við vísitasíu árið 1857 var sú kirkja talin gölluð og fornfáleg.  Þá hófust umræður um byggingu nýrrar kirkju og var mikið rætt um hvort hún ætti að vera úr torfi eða timbri.  Þá var prestur á Bægisá Arngrímur Halldórsson en hann hóf undirbúinga að byggingu nýrrar kirkju.  Flestir vildur torfkirkju og var sú afstaða byggð á fjárhagsstöðu kirkjunnar.  Þá fór af stað söfnun og afráðið í framhaldi af því að byggja timburkirkju.  Sigurður Pétursson timburmaður á Akureyri var ráðinn til að teikna hina fyrirhuguðu kirkju og gera áætlun um efniskaup.

Benóný Jónsson smiður frá Kambhóli var ráðinn yfirsmiður kirkjunnar og var hann 88  daga að verki árið 1858.  Með honum unnu að smíðinni Sigfús Jónsson á Þrastarhóli í 98 daga, Jónatan Jónatansson á Auðnum í 108 daga og Ólafur Guðmundsson á Mælifelli í 71 dag.  Unnu þeir samtals 365 dagsverk við kirkjusmíðina og að auki smíðaði Halldór Bjarnason á Reynistað níu glugga í kirkjuna.  Má ætla að Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni hafi smíðað klukknaramböld og jafnvel fleira járnkyns fyrir kirkjuna.  Kostnaður við byggingu Bægisárkirkju var 1279 ríkisdalir og 26 skildingar.

Kirkjunni hefur verið vel við haldið.  Erfiðlega gekk þó fyrstu árin að halda henni við og á árunum 1931-1932 hlaut kirkjan aðalaðgerð.  Henni var lyft af sökkli, grunnmúrinn rifinn og steyptur sökkull undir kirkjuna og nýjar tröppur.  Bætt var úr öllum fúaskemmdum í veggjum og þaki framkirkju, gluggar ýmist smíðaðir nýir eða gert við þá.

Múrhúðun var síðan brotin af veggjum 1983 þeir einangraðir að utan og klæddir.  Nýr gluggi var smíðaður í kvist á sönglofti 1993 og gólf og gluggar máluð og 1998 var skipt um gler í gluggum og þeir málaðir.

Byggingarlist Bægisárkirkju er afar sérstæð. Þar mætast gamlar hefðir og nýjar áherslur þar sem tvö ólík byggingarform  eru greypt saman í sterka byggingarlistarlega heild.  Hér getur að líta sjálfstæð verk tveggja forsmiða og verður sú skoðun sett fram hér að kirkjuskipið sé verk Sigurðar Péturssonar, en forkirkjan Benónýs Jónssonar ásamt setulofti og yfir framkirkju.  Óvíða getur að líta  heildstæðara verk tveggja hönnuða þar sem höfundareinkenni hvors um sig njóta sína jafn vel og í þessu húsi segir Guðmundur L. Hafsteinsson.

Gripir og áhöld:

Vængjatafla yfir altarinu er í dæmigerðum endurreisnarstíl þó hún sé trúlega smíðuð og máluð á 18. öld.  Málverkin bera svipmót rokkokotímans.  Umgjöldin er máluð með marmaramálningu, en súlnahöfuð og fætur eru gylltir.  Framan á vængjunum er kvöldmáltíð Krists, en innan á vængjunum er öðrum megin fæðing Krists og hinum megin svífur Kristur upprisinn og stafar geislum frá honum.  Á miðtöflunni eru tólf litlar myndir úr píslarsögu Krists.

Tvær altaristöflur eru í kirkjunni, en á norðurvegg er altaristafla sem áður var í Myrkárkirkju, einnig vængjatafla.  Miðmyndin sýnir síðustu kvöldmáltíð Krists.  Innan á vængnum til vinstri er skírn Jesú og himnaför á þeim hægri.

Á altarinu eru tveir stórir og voldugir kertastjakar úr látúni.  Stjakarnir standa á þremur fótum undir stéttinni. Glæsilegur altarisstjaki úr Myrkárkirkju er nú varðveittur í Bægisárkirkju.  Hann er í barokkstíl og með sexhyrndum fæti. Vandaður danskur kaleikur og patína frá 19. öld úr silfri með gyllingu.  Undir fætinum er rist ártalið 1834. Kertaljósahjálmur úr kopar, stór og vandaður hangir framan við kórinn, en mun í upphafi lýst húsakynni á Suðurlandi.  Hann er með tveimur ljósakrönsum og er hver krans með sex ljósaliljum.  Efst er fleginn örn. Predikunarstóllinn er úr eldri kirkju á staðnum.  Er hann með marmaramálningu og guðspjallamannamyndum á hliðunum.  Stóllinn var lagfærður  og gerður upp af Hannesi og Kristjáni Vigfússonum frá Litla-Árskógi um leið og kirkjan var öll rækilega tekin í gegn um 1970.

Skírnarfonturinn var smíðaður og skorinn út af Einari Einarssyni djákna í Grímsey.  Hann er með fjórum hliðum og útskornum myndum þar sem má sjá skírn Jesú,  Jesú blessa börnin og góða hirðinn.  Á fjórða spjaldinu er áletrun:  Bægisárkirkja 1858-1958.  Efst á skírnarskálinni er áletrun:  Til mín skal börnin bera.  Í fontinum er vönduð skírnarskál úr silfri.  Gripir þessir voru keyptir fyrir gjafafé í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1958.

Í kirkjunni er gamalt harmóníum af Köhler-gerð frá fyrri hluta síðustu aldar.  Kirkjuklukkur tvær hanga á ramböldum á bita í forkirkjunni  Önnur er frá 1797, hin er leturlaus.  Þriðja klukkan er geymd á sönglofti.  Hún er frá 1750.

Margar merkar bækur á Bægisárkirkja, sem geymdar eru í altarinu, þar á meðal er Biblía, dönsk, prentuð í Kaupmannahöfn árið 1607, og Steinsbiblía, prentuð á Hólum 1728.

Kirkjugarður:

Skv. gömlum vísitasíum var girðing hlaðin úr torfi og grjóti allt til ársins 1965.  Árið 1941 var kirkjugarðurinn stækkaður og var þá strengd vírgirðing ofan á torfgarðinn.  Sumarið 1965 var garðurinn enn stækkaður og girtur vandaðri vírnetsgirðingu.  Garðurinn var sléttur og þakinn árið 1990.

Framundan forkirkjunni er legsteinn séra Jóns Þorlákssonar prests og skálds.  Hann er úr grágrýti og stendur á grágrýtissökkli.  Varðinn sjálfur er slípaður að framan og á baki en er óreglulegur á hliðum.  Séra Jón var eitt helsta skáld hérlendis á sinni tíð og talinn fjölhæfur gáfumaður.  Efst á legstein séra Jóns er dregin harpa og má oft og tíðum sjá slíkt tákn á legsteinum skálda og listamanna.

Þessum orðum mínum langar mig að ljúka á orðum úr þeim eina sálmi sem séra Jón á í sálmabókinni, en sunginn var í messunni:

Sjá, nú er liðin sumartíð,

hverrar ljómi, blíðublómi

hruman áður hressti lýð.

Nú sjáum vér, hver fastan fót

allt það hefur, gæfan gefur.

Gráts er hér og gleðimót.

Upprisu sumar ímynd ber

Guðs því kraftur orkar aftur

að nýjum gróða verðum vér.

Þökkum og ljúfri þiggjum önd

gáfur þær, oss gjörði færa

sumarið frá Herrans hönd.

Komandi tökum vetri vel.

Beiskt og sætt oss ætíð ætti

eins kært vera líf og hel.