Þorleifur Rósantsson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Þorleifur Rósantsson

Þorleifur var fæddur á Efstalandi í Öxnadal 1. febrúar 1895, sonur hjónanna Guðrúnar Bjarnadóttur og Rósants Sigurðssonar. Þorleifur ólst upp á Efstalandi og átti þar heima til ársins 1917 þegar fjölskylda hans fluttist að Hamri á Þelamörk. Þar tók Þorleifur við búi árið 1925 og bjó til æviloka 17. júlí 1968.

 

Ítarlega grein um Þorleif á Hamri og kveðskap hans er að finna í Tímaritinu Súlum 1990. Einnig er birt ljóð eftir hann í Tímaritinu Súlum 1988.

 

 

Á ferð niður Öxnadal:

Nú er indæl blessuð blíða

 

brennivínið drekka skal.

 

Kátir sveinar klárum ríða

 

kæran fram í Öxnadal.

 

 

Sú eina:

 

Eina hlýt ég elska og þrá,

 

við aðrar lítið braska.

 

Heitir ítur auðar-Gná

 

ákavítisflaska.

 

 

Kristján frá Djúpalæk var með þáttinn “Gull í tᔠí vikublaðinu Verkamanninum á Akureyri og bað Þorleif um vísur í þáttinn. Þorleifur svaraði:

Ljóðagull ég ekkert á

 

né önnur þvílík mæti.

 

En látið þig hafa leir í tá

 

Leifi kannski gæti.

 

 

Var að rista torf þegar menn, sem áttu leið framhjá, komu til hans og buðu honum að drekka með sér, en hann var of þreyttur fyrir drykkju:

 

Fyrir endann ei má sjá

 

illa ég stend að vígi

 

til að lenda lúinn á

 

landakennderíi.

 

 

Til mánans:

 

Máni karl á svipinn súr,

 

sinnir dagsins boðum,

 

er að varpa eftir dúr

 

af sér rekkjuvoðum.

 

 

Gægist andlit æði ljótt

 

undan hvítu skýi.

 

Hefurðu laxi lent í nótt

 

á “landakenndiríi”.

 

 

Guðmundur Snorrason frá Steðja á Þelamörk reyndi mikið að koma saman vísum, en gekk brösulega að mati Þorleifs:

 

Andagift og orðagnótt

 

illa manninn skorti.

 

Með harmkvælum á hálfri nótt

 

heila vísu orti.

 

 

Guðmundi líkaði vísan illa svo Þorleifur gerði bragarbót:

 

Andagift og orðagnótt

 

ekki manninn skorti.

 

Án harmkvæla á hálfri nótt

 

heila vísu orti.

 

 

Vikublaðinu Íslendingi sagt upp:

 

Ég af “Lending” lítt er hrifinn,

 

lestur enda þann.

 

Útgefendum óupprifinn

 

endursendi hann.

 

 

Fleygar stundir

 

Djúpt ég teyga ið dýra vín,

 

dylst þó geigur undir.

 

Ljúft í veigum ljósblik skín,

 

líða fleygar stundir.

 

 

Loga sund um lágnættið,

 

litkast grundin fríða.

 

Vinafunda fögnuð við

 

fleygar stundir líða.

 

 

Brosir strindi, loft og lá,

 

leistu myndir fegri?

 

Nótt er synd að sofna frá

 

svona yndislegri.

 

 

Næturferð:

 

Húmar að og hallar degi,

 

herðir napran veðrahvin.

 

Lýsa mér á mjallarvegi

 

mánaljós og stjörnuskin.

 

 

Til Öxnadals:

 

Er hækkar sól á heiðum vorsins stig

 

og hlýir geislar lífga svörðinn kalinn,

 

ég get ekki að því gert, þá langar mig

 

á gamlar slóðir fram í Öxnadalinn.

 

 

Þótt kunningjarnir séu flestir frá

 

og fækki gömlu endurminningonum,

 

mig dregur fram í dalinn dulin þrá,

 

mig dreymir best og ljúfast enn hjá honum.

 

 

Stökur:

 

Aurum kom ég æ í lóg,

 

er það sýnt með rökum.

 

Eg á bara af einu nóg,

 

illa gerðum stökum.

 

 

Þar ég aldrei bý við brest,

 

þótt bú mitt kreppan skerði,

 

en þær eru eins og annað flest

 

ekki í miklu verði.

 

 

Þær drýgja hvorki dagleg störf,

 

né draga úr þeim til muna,

 

svo á því sviði er engin þörf

 

að auka framleiðsluna.

 

 

Lífsins góða gjöf er ein

 

að geta mikið unnið,

 

en mér hefur ekki í merg og bein

 

máttur til þess runnið.

 

 

Lífsmátinn:

 

Fullur ég sofna og fullur upp rís

 

og fullur mig lengst mun gleðja,

 

fullur ég ralla og flakka kýs

 

og fullur mun heiminn kveðja

 

við auða dýkið sem aldrei frýs

 

fyrir utan og neðan Steðja.

 

 

Á vegamótum:

 

Eg hér nú við ykkur skil,

 

aðrar slóðir kanna,

 

og vermi mig við unaðsyl

 

endurminninganna.

 

 

Stef:

 

Ljóðasrengur

 

stirður brestur

 

stopult gengur það.

 

Ekki lengur léður frestur

 

letin þrengir að.

 

Á aftni hljóðum

 

svefn mig sækir

 

sigrar ljóðaþrótt.

 

Þorna óðum

 

andans lækir.

 

Amen. Góða nótt.