HÖRGÁRDALUR

Vestur frá Hörgárósum gengur holtarani upp undir fjallshlíðina. Heitir þar Reiðholt, sem hæst ber á því uppi undir fjallinu, og er það skilið frá fjallinu af alldjúpri dæld, sem Gróf er kölluð. Við holtarana þennan eru hin eiginlegu norðurtakmörk Hörgárdals að vestanverðu.

Vestan að neðri hluta Hörgárdals liggur allhátt fjall, reglulega skapað en allmjög skörðum skorið. Það er skilið frá meginfjallgarðinum fyrir vestan það að dal, sem opinn er í báða enda og Þorvaldsdalur heitir. 

Fjall þetta skagar lengst fram með hvelfdri hlíðarbungu um Möðruvelli. Er það hið tígulegasta með hömrum nokkrum efst; síðan er skriðubelti ekki allbreitt, en hlíðar eru grónar hátt uppeftir, enda eru þær ekki mjög brattar. Innri endi fjalls þessa er við minni Þorvaldsdals. Framhald þess til norðurs nær áfram fyrir ofan Galmaströnd og innsta hluta Árskógsstrandar. 

Ekkert sameiginlegt heiti hefur fjall þetta, en sums staðar er það í riti kallað Möðruvallarfjall einu nafni. Upp af Reiðholtinu eða lítið eitt innar er Hofsskarð; innan við það er hnjúkur, sem Hofshnjúkur eða Þríklakkur heitir, dregur hann það heit af lögun sinni. Fyrir sunnan hann er djúpt skarð og jökulgrafið. Heitir það Þrastarhólsskarð. Sunnan þess er einkennilegur hnjúkur með tveimur burstum að framan en klofinn af grunnu skarði; það heitir Hallgilsstaðaskarð, nyrðri hnjúkurinn Þrastarhólshnjúkur en hinn syðri Hallgilsstaðahnjúkur. Fyrir sunnan Hallgilsstaðahnjúk er breitt skarð, mjög reglulegt, bogadregið í botni;  ber það allar minjar eftir skriðjökul, sem grafið hefur það niður í fjallsbrúnina. Það heitir Staðarskarð, og er upp af Möðruvöllum. Sunnan að því er Staðarhnjúkur.

Ofan í hann miðjan er lítil klauf, sem Hringingarklauf heitir; fylgja henni þau munnmæli, að þangað hafi Möðruvallaklerkar flúið endur fyrir löngu með kirkjuklukkurnar, er þeir óttuðust rán Tyrkjans.  Sunnan við Staðarhnjúk er Dunhagaskarð, síðan Dunhagahnjúkur og þá Húsárskarð, og er það syðsta skarð í þessum fjallvegg.  Niður úr öllum skörðum falla smáár, sem samnefndar eru þeim. Í botni flestra skarðanna eru hjarnfannir, en ekki mun þar vera um eiginlega jökulmyndun að ræða. 

Fyrir sunnan  Húsárskarð er fjallið skriðulaust, en klettar eru þar miklir allt suður að Fornhagaöxl, en svo nefnist fremsti endi þess við mynni Þorvaldsdals. Víða eru þar í því hrikalegir klettahausar, sem aðskildir eru af gilskorningum. Hæstur þeirra er Fálkahaus fyrir ofan Fornhaga, 703 m, en uppi yfir Auðbrekkutorfu er Svírahaus  einna hrikalegastur; en um hann eru þau munnmæli, að hann muni hrynja, þegar einn maður eignist alla Auðbrekkutorfu. Nokkrar skeiðar eru í klettum þessum sem fara þarf í fjallgöngum. Þykir það jafnan illt verk og ekki fært óvönum. Einkum er svonefnd Mjóhilla illa ræmd.

Sunnan við Fornhagaöxl er mjög breitt skarð eða öllu heldur dalamynni, milli hennar og Lönguhlíðarfjalls. Fram úr skarði þessu falla tvær þverár; falla þær  báðar í allmiklum giljum, einkum sú ytri, og eru þar margir háir og fríðir  fossar. Árnar heita Ytri- og Syðri-Tunguá og eru kenndar við Dagverðartungu, bæ þann, er milli þeirra stendur. Ytra gilið heitir Fornhagagil og er það mjög rómað fyrir þroskamikinn og fjölbreytilegan gróður; annars er birkikjarr nokkurt í báðum giljunum, og reynir vex í Fornhagagili. Ytri-Tunguá kemur norðan af Þorvaldsdal. Heitir hún fyrst Lambá og kemur úr daldragi, er liggur til vesturs og fellur þar niður í Þorvaldsdalinn, sem Kytra heitri, en þar eru vatnaskil. Hamarskálar hrikalegar eru þar  í vesturfjallinu, og er Tröllaskál þeirra mest. Saman við Lambá fellur síðan önnur á, er kemur úr vestri, og heitir Úlfá; hún kemur úr tveimur þverdölum, Ytri-Tungudal og Illagilsdal; norðan af Illagilsdal er Illagilsfjall, en milli dalanna heitir Dyngjuhnjúkur, 1.281 m. Upp af botnum dala þessara er Dýjafjallshnjúkur, hæsta fjallið milli Hörgárdals og Svarfaðardals, 1.241 m. Eftir að Lambá og Úlfá renna saman, heitir áin Ytri-tunguá. Fyrir sunnan Ytri-Tungudal er Kirkjufjall, en síðan Syðri-Tungudalur, og loks er Skriðudalur syðstur,  en milli þeirra er Selhnjúkur.  Undir honum var selstaða frá Skriðu.  Suður úr Skriðudal gengur dalverpi, er Görn heitir, að baki Lönguhlíðarfjalls. Úr dölum þessum fellur Syðri-Tunguá. Allir eru hnjúkar þessir háir og hrikalegir ásýndum. Úr botni Skriðudals er örstutt leið yfir í Klængshólsdal í Skíðadal. 

Lönguhlíðarfjall nær  frá dalsmynnum þessum inn að skarði eða skál lítið eitt fyrir sunnan Öxnhól; kemur þar niður árspræna, er Oddsstaðaá heitir; er það gegnt Bægisá að kalla.   Lönguhlíðarfjall er hæst 858 m, en með furðubeinni brún, skarðalaust, giljalítið en snarbratt og eru þó engir teljandi klettar í því. Er Langahlíð samnefni á því. Gegnt fremri enda fjallsins eru mót Öxnadals og Hörgárdals. Oft hafa skriður fallið á þessum slóðum. 

Sá hluti Hörgárdals, sem hér um ræðir, andspænis Þelamörkinni, frá ósum til dalamóta, er allbreiður og blómleg sveit. Nyrst eru breiðar, þurrar engjasléttur með Hörgá, en upp frá þeim grösugar, hallandi mýrar og móar upp að fjallsrótum, en hlíðin síðan gróin langt upp eftir. Helst svo inn fyrir Möðruvelli. Þar tekur hlíðarfláinn að minnka, og má heita að hann hverfi með öllu þegar kemur inn hjá Auðbrekkutorfu, enda er Fornhagaöxlin snarbrött. Undirlendi helst þó stöðugt meðfram Hörgá, en misjafnlega grösugt. Tunguárnar hafa spillt því mjög og skapað breiðar eyrar, sem lítt eru grónar, og flæmast árnar þar fram og aftur. Sjálf fellur Hörgá frá Laugalandi og fram að dalamótum á breiðum eyrum. Undir Lönguhlíðarfjalli eru hallandi valllendisgrundir, en eyrar breiðar með ánni. Þéttbýlt er á svæðinu og er svæðið oft kallað Kjálki frá Ytri-Tunguá og niður undir Möðruvelli. 

Þegar kemur fram fyrir dalamótin tekur Hörgárdalur að þrengjast, en alltaf er hann þó víðari en Öxnadalur, og má það meðal annars þakka þverdölum þeim, er ganga vestur úr honum. Þá eru og fjöll ekki jafn brött og við Öxnadal, svo að hlíðarflái verður meiri, aðallega þó að vestanverðu.

Austan að Hörgárdal liggur fyrst Staðartunguháls og síðan Drangafjall; nær það inn að dalverpi, er Grjótárdalur heitir. Enda þótt Drangarnir beri mjög sama svip úr báðum dölunum, þá er hlíðin undir þeim mjög ólík, enda eru engir hólar fyrir neðan þá í Hörgárdal. Má í stuttu máli segja, að öll sé hliðin óslitin að mestu og lítt giljum grafin, gróin vel hið neðra, en með einstökum, löngum klettabeltum og skriðurunnin ofan til, uns kemur upp undir brúnahamrana. Framhrun nokkur eru í henni, og hafa skapast þar urðarhólar.

Upp af Einhamri er einstakur klettur í hlíðinni, en norður frá honum gengur slitið klettabelti langt norður eftir miðri hlíð, og hefir kletturinn sýnilega losnað frá því. Setur klettabelti þetta svip nokkurn á hlíðina. Öll er hlíð þess brött, og hætt er þar við skriðum og snjóflóðum. Frá Bási liggur leið yfir í hálsinn fyrir norðan Drangafjallið, yfir í Öxnadal.

Eins og fyrr segir, endar fjallshlíðin við Grjótárdal. Hann er þröngur, jökulgrafinn og gróðurlítill. Liggur drag hans yfir undir Gilsskarð í Öxnadal, sem fyrr segir. Í botni hans er smájökull.

Vesturhlíð Hörgárdals er mjög grafin af skörðum og dölum. Fyrir innan Lönguhlíðarfall taka þegar í stað við skörð og dalhvilftir, en háir klettahnjúkar á milli þeirra, 1.000-1.300 m. Nyrstur er Botnahnjúkur, þá Hafrárhnjúkur og Tunguhnjúkur syðstur; milli þeirra er dalur, sem Hafrárdalur heitir að norðanverðu en Ytri-Tungudalur að sunnanverðu. Úr honum fellur Hafrá; í hana fellur Lambá úr Lambárdal, milli Botnahnjúks og Hafrárhnjúks. Uppi úr Hafrárdal er örskammt yfir í Gljúfurárdal í Skíðadal, og var sú leið fyrrum alloft farin. Tunguhnjúkur er mjög hömrum girtur hið efra, og giljum grafin að sunnanverðu. Fyrir innan hann hefst Barkárdalur. Er hann allbreiður og um 14 km langur.   Liggur hann í sveig allmiklum til vesturs. Heitir suðurhlíð hans Þúfnavallasveigur, en fjallið sunnan við mynni hans Slembimúli. Ber mikið á því neðan úr Hörgárdal. Þúfnavallasveigur er mjög hliðarbrattur; eru þar nokkur gil allmikil; mest þeirra eru við Tvílæki og Lambá. Norðvestur úr Barkárdal skerast tveir dalir, sem opnast í sameiginlegu mynni rétt  innan við Tunguhnjúk. Heita þeir Fremri-Tungudalur og Féeggsstaðadalur, en áin Féeggsstaðaá. Milli þeirra gengur fram örmjó fjallsröðull, er Féegg heitir.  Féeggsstaðaá fellur  í gili miklu og niður í Barká. Venjulega er hún vatnslítil, en í leysingum verður hún hið mesta foraðsvatn og þá alófær.  Neðanvert gilið heitir Skógargil. Er þar allmikill gróður og fagur, smábirkirunnar, víðir og blóðgresi. Ýmsir tindar eru í dölum þessum. Heitir Blekkill í botni Tungudals, en Blástakkur upp af Féeggsstaðadal. Fyrir framan Féeggsstaðadal er Baugaselsfjall, bratt, klettótt og giljum grafið.   

Eins og fyrr  segir, kemur Barká úr Barkárdal, undan jökli í botni hans.  Er botninn allbreiður og skálarlaga, og rísa þar upp dökkar hamrabríkur, er skilja hann frá botni nágrannadalanna. Liggja skörð yfir þá, og eru um þau leiðir, þ.e. Hólamannaleið og Héðinsskarð. Suður úr dalbotninum er Gíslaskarð yfir í Myrkárdal, og austan við það Gíslahnjúkur.  Er mjög stutt þar  á milli dalabotnanna.  Jökulmörkin í Barkárdal liggja í nálægt 900 m hæð.

Fyrir framan Slembimúla, skerst Myrkárdalur vestur úr Hörgárdal, en undir fjallinu er allbreitt undirlendi, og víða grösugt. Myrkárdalur er styttri og beinni en Barkárdalur. Undirlendi er þar nokkurt, einkum að norðanverðu, og eru þar í honum tveir bæir, Myrkárdalur og Stóragerði. Upp af þeim er Myrkárhnjúkur, 1.045 m. Botninn er breiður, með fláandi hlíðar upp undir klettabelti. Þar er jökull nokkur, en miklu minni jökullitur er þá á Myrká en Barká. Suðurhlíð dalsins heitir Flögudalur. Milli hans og Hörgárdals er Kerlingarfjall, og dregur það nafn af háum og oddhvössum hnjúk, er Flögukerling heitir. Sunnan við Kerlingarfall er Geldingahnjúkur, 1.306 m. Bæði þessi fjöll eru með klettum í brúnum, en hlíðar þeirra eru með miklum fláa og grónar lengi uppeftir, en þar mýrlent í hlíðum, og svo er einnig niður á undirlendinu, sem að mestu eru hallandi mýrar. Undir Flöguselshnjúk stendur Flögusel, fremsti bær í Hörgárdal, nokkru neðar er mynni Grjótárdals. 

Fyrir framan Flögusel breytir Hörgárdalur um stefnu; hefur hann að þessu legið að mestu leyti í suðvestur, en beygir nú til vesturs, og heitir þá suðurhlíðin Sveigur úr því. Vestan að mynni Grjótárdals er Grjótárdalsfjall, milli hans og Sveigsins. Skagar það fram með dalnum í örmjóum klettaröðli. Rís tindur þess upp líkur pýramída að sjá frá neðstu bæjum Hörgárdals, og virðist hann loka dalnum. Vestan undir Grjótárdalsfjalli er djúpt og breitt skarð yfir að Ólafarhnjúk. Upp í skarð þetta liggur drag Hörgárdalsheiðar úr suðri, og eru þar efstu upptök Norðurár norður undir brúnum Hörgárdals. Botn Hörgárdalsins er allbreiður og kringdur einstökum hnjúkum og skörð á milli. Norður úr honum fyrir framan Flöguselsfall gengur Sandárdalur, og nær botn hans yfir að botni Myrkárdals. Fyrir framan hann er Sandárhnjúkur. Fjöllin við dalbotninn eru fremur lág, en einstakir tindar standa þar upp úr hásléttunni, en jökulfannir eru hvarvetna í lægðum og slökkum. Fjallasýn er fríð en æði kuldaleg þar í dalbotninum. Hæst ber þar tvo tinda fyrir botni dalsins, Illiviðrishnjúk, 1.258 m, sunnar, og Prestsfjall, 1.296 m, norðar. Milli þeirra er Afglapaskarð. Norðan undir Prestafjalli er Hjaltadalsheiði, sem fyrrum var allfjölfarin leið og lýst verður síðar. Upptök Hörgár eru þar norðarlega á heiðinni.

Niðri í dalsbotninum niður undir Sandá eru mýraflákar nokkrir, sem Svínamýrar heita; þar átti Hólastaður land. Hins vegar er Sveigurinn afréttarland Möðruvalla í Hörgárdal.

 

Heimild: Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, frá Hlöðum, fyrri hluti sem kom út 1949.

 



View Larger Map