Viðræður við alþingismenn

Í dag hittu oddviti og sveitarstjóri Hörgárbyggðar alþingismenn kjördæmisins til að óska eftir atbeina þeirra til að þoka áfram brýnum málum í sveitarfélaginu. Efst á blaðinu voru vegabætur og málefni Gásakaupstaðar. Auk þess var lögð áhersla á að þriggja fasa rafmagn verði fáanlegt á öllum bæjum sem þess þarfnast, að Hringvegurinn efst í Öxnadal verði girtur af o.fl.

Mjög brýnt er að endurbætur á Hörgárdalsvegi haldi áfram því að hættulegasti kafli vegarins, um brýrnar á Ytri- og Syðri-Tunguá, er enn sá sami og áður þó að 1. áfanga endurbótanna sé lokið.

Lögð var áhersla að veitt verði framlag til uppbyggingar á menningartengdri ferðaþjónustu á hinum forna Gásakaupstað. Ef einhvers staðar er hægt að tala um menningartengda ferðaþjónustu, þá er það við skilyrði eins og eru á Gásum. Ljóst er þó að opinberir aðilar verða að koma þar að málum með myndarlegum hætti í byrjun, ef staðurinn á að geta orðið sú lyftistöng í atvinnumálum sem hann hefur alla burði til.

Mikilvægt er að undirgöng komi undir Hringveginn við Þelamerkurskóla fyrir umferð skólanemenda og almenna gangandi umferð. Skógarreiturinn fyrir ofan skólann hefur verið skilgreindur sem “opinn skógur”, sem felur í sér að þar verður byggð upp aðstaða til áningar. Hagkvæmt er að nota bílastæði skólans fyrir áningarstaðinn, en undirgöng eru forsenda þess að það sé hægt. Þá hefur Þelamerkurskóli skilgreint sig sem “útiskóli”.

Vegtengingar inn á Hringveginn við Húsamiðjuna og Berghól standast ekki kröfur um umferðaröryggi. Við gerð aðalskipulags fyrir Hörgárbyggð voru mótaðar hugmyndir um framtíðarfyrirkomulag vegtenginga á þessum stað.

Á næstu árum þarf að vinna að endurbótum á Hringveginum um Kræklingahlíð. Umferð um hann er mikil og margþætt. Helstu atriði sem þarf að huga að í þessu sambandi eru: gerð hliðarvegar vegna heimreiða, reiðleið, reiðhjólastígur og lýsing.

Gera þarf varanlegar endurbætur á Blómsturvallavegi og Hlíðarvegi á næstu árum. Við Blómsturvallaveg er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta og Hlíðarvegur þarf að geta skammlaust gegnt hlutverki sínu sem vegtenging fyrir viðkomandi íbúa og sem reiðleið og skokkbraut norður frá Akureyri.

Viðræðurnar við alþingismennina voru gagnlegar og er vænst mikils af atbeina þeirra í ofannefndum atriðum þátt fyrir erfiða stöðu í fjármálum þjóðarinnar.