Viðbrögð við heimsfaraldri

Farið var yfir stöðu mála, þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og það sem framundan er.  Lagðar voru fram samantektir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varða viðspyrnu af hálfu sveitarfélaga og leiðbeiningar um aðgerðir fyrir heimilin vegna covid-19.

Sveitarstjórn samþykkti að veittur verði allt að 100% afsláttur af greiðsluþátttöku foreldra í leikskóla þá daga sem foreldrar taka ákvörðun um að nýta ekki pláss og tilkynna það fyrirfram. Gildi þetta frá og með mars mánuði. Ekki verði innheimt fyrirfram, heldur verði innheimt eftirá í samræmi við notkun meðan breytt starfsemi varir. Ekki verður endurgreitt vegna skertrar þjónustu heldur horft til þess að inneign gangi upp í þjónustu síðar. Eins og áður er aðeins greitt fyrir þær skólamáltíðir þegar barn er í skóla og verði tillit tekið til þess strax frá og með mars mánuði.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta um sinn ákvarðanatöku er varðar frestun á greiðslum fasteignagjalda þar til samræmdar leiðbeiningar liggja fyrir.  Þó geta þeir greiðendur sem sannanlega hafa nú þegar orðið fyrir tekjumissi vegna covid-19 sótt um það til skrifstofu sveitarfélagsins að fá frest á greiðslu þess gjalddaga sem er með eindaga 6.apríl n.k.

Sveitarstjórn þakkar öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð og mikil störf í mjög svo krefjandi ástandi.   Þá sendir sveitarstjórn íbúum Hörgársveitar kærar kveðjur og þakkir fyrir liðlegheit og samhug og hvetur fólk áfram til að hjálpast öll að í baráttunni við að koma okkar góða samfélagi í gegnum þetta svo vel sem kostur er.