Verksmiðjan á Hjalteyri hlaut Eyrarrósina

Verksmiðjan á Hjalteyri hlaut Eyrarrósina í síðustu viku, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Verksmiðjan á Hjalteyri er listamiðstöð með sýningarsali og gestavinnustofur í gamalli síldarverksmiðju Kveldúlfs við Eyjafjörð.

Forsvarsmenn Verksmiðjunnar þóttu vel að verðlaununum komnir, ekki síst fyrir þrautseigju, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi við flókin rekstrarskilyrði. Í Verksmiðjunni sé list ekki einungis til sýnis, heldur verði hún þar til og sé mótuð af aðstæðum. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Frystiklefanum í Rifi nú eftir hádegið og það var Gústav Geir Bollason, umsjónarmaður Verksmiðjunnar, sem veitti verðlaununum viðtöku.

Forsvarsmenn Verksmiðjunnar hljóta auk viðurkenningarinnar 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands. Fyrr í febrúar voru þrjú verkefni tilnefnd af valnefnd, auk Verksmiðjunnar voru það Menningar- og fræðslusetrið Eldheimar í Vestmannaeyjum og alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar í Garði, þau hljóta einnig peningaverðlaun og flugferðir innanlands.

Frystiklefinn í Rifi hlaut Eyrarrósina árið 2015 en þau hafa verið veitt frá árinu 2005 og það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem standa að verðlaununum.