Velheppnuð árshátíð

Árshátíð félaganna á Hörgársvæðinu var haldin að venju í Hlíðarbæ sl. laugardag, á fyrsta vetrardag. Eins og áður stóðu fimm félög að hátíðinni: Ferðafélagið Hörgur, Hrossaræktarfélagið Framfari, Kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls, Leikfélag Hörgdæla og Ungmennafélagið Smárinn.

Dagskráin var vönduð og henni lauk með fjörugu balli með hljómsveitinni Upplyftingu. Á árshátíðinni var Helga Steinssyni á Syðri-Bægisá veitt viðurkenning fyrir gríðarlega góðan árangur við veiðiskap í Hörgá sl. sumar. Hann var að því tilefni afhentur g-strengur, sem mun vísa til þess að nýlega hefur myndast góður veiðistaður í Hörgá, sem stundum er nefndur sama nafni og flíkin. Á myndinni er Helgi klæddur hinni virðulegu flík.