Velheppnaðir kynningarfundir

Í gærkvöldi og fyrrakvöld voru haldnir fjölmennir kynningarfundir í Hlíðarbæ um sameiningarmál Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar.  Kosið verður um sameininguna laugardaginn 20. mars nk. Á fyrri fundinum fór Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, yfir stefnu ríkisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins til að unnt sé að færa verkefni og völd nær fólkinu út um land. Eitt meginatriðið í þeim efnum er að sameina sveitarfélög, svo að þau stækki og geti ráðið við fleiri verkefni. Í forföllum ráðherrans á seinni fundinum fór Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri, yfir málið. Á fundunum fór Björn Ingimarsson, ráðgjafi, ítarlega yfir niðurstöður samstarfsnefndarinnar. Umræður urðu svo um málið frá ýmsum hliðum.

Á myndinni hér fyrir ofan eru oddvitar Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, Axel Grettisson og Helgi Steinsson, ásamt Kristjáni L. Möller. Hér fyrir neðan er mynd af hluta fundarmanna á seinni fundinum og svo er mynd af Hermanni Sæmundssyni eftir að hafa verið leystur út með kleinupoka til að fara með í ráðuneytið, en ráðherrann hrósaði kleinunum sérstaklega. Þær voru bakaðar af félagskonum í Kvenfélagi Hörgdæla sem sáu um veitingarnar á kynningarfundunum.