Var tekin ljósmynd af Jónasi?

Afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar er á sunnudaginn, 16. nóvember. Þá verður hinn árlegi Jónasarfyrirlestur Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal haldinn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík.

Þá flytur Tryggvi Gíslason magister fyrirlestur sem hann kallar „Myndin af Jónasi Hallgrímssyni”.  Í fyrirlestrinum verður fjallað um mynd þá sem þjóðin hefur gert sér af skáldinu og náttúrufræðingnum Jónasi Hallgrímssyni.  Einnig verður fjallað um teikningar, málverk og ýmis önnur myndverk sem gerð hafa verið af Jónasi.  Færð verða rök fyrir því að tekin hafi verið ljósmynd af Jónasi Hallgrímssyni og að teikning eftir þeirri ljósmynd hafi varðveist. Fyrirlesturinn hefst kl. 14.

Fyrsti Jónasarfyrirlesturinn var haldinn í Amtsbókasafninu á Akureyri 16da nóvember 2004.  Þar ræddi Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur og myndlistarmaður um sýn sína á Jónasi Hallgrímssyni og samtímanum.  Árið eftir flutti Atli Heimir Sveinsson tónskáld fyrirlestur sem hann nefndi „Ljóðskáldið Jónas Hallgrímsson". Árið 2006 flutti dr Bjarni E. Guðleifsson prófessor fyrirlestur um „Náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson” og á afmælisári hélt Helga Kress prófessor fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri sem hún kallaði „Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar”.