Upplestrarhátíð Þelamerkurskóla

Upplestrarhátíð Þelamerkurskóla verður miðvikudaginn 16. mars. Hún er lokapunkturinn á upplestraræfingum hjá 7. bekk og liður í þátttöku hans í Stóru upplestrarkeppninni. Ár hvert hefst undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sem einnig er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.

Á upplestrarhátíð skólans verða valdir fulltrúar hans í Stóru upplestrarkeppninni sem að þessu sinni fer fram í Grenivíkurskóla 31. mars næstkomandi. Í þeirri keppni eiga líka fulltrúa Valsárskóli, Stórutjarnaskóli, Grenivíkurskóli og Hrafnagilsskóli.

Upplestrarhátíðin hefst kl. 11:15 í stofu 4. Foreldrar og aðrir velunnarar skólans eru velkomnir á þessa menningarhátíð nemendanna.

Í upphafi dagskrárinnar verður tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar, síðan lesa nemendur upp sögu sem var valin fyrir þá og því næst lesa þeir ljóð sem þeir hafa sjálfir valið. Þegar því er lokið dregur dómnefnd sig í hlé og á meðan beðið er eftir úrslitunum syngur Barnakór Þelamerkurskóla tvö lög og einnig verða tvö tónlistaratriði frá nemendum í Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Dómnefndin er skipuð þremur fulltrúum frá skólanefnd Hörgársveitar, Foreldrafélagi Þelamerkurskóla og Leikfélagi Hörgdæla.

Ef þú smellir hér getur þú séð myndir frá upplestrarhátíðinni í fyrra