UMSE Íslandsmeistari 11-14 ára

Um miðjan ágúst vann frjálsíþróttalið UMSE í flokki 11-14 ára það afrek að verða Íslandsmeistarar félagsliða. Þetta var á Meistaramóti Íslands 11-14 ára í frjálsum sem fram fór á Hornafirði. Þetta er mikið afrek og er í fyrsta skipti í fjöldamörg ár sem landsbyggðarlið nær þessum titli. Svo er þetta í fyrsta skipti sem UMSE nær honum. UMSE-liðið er skipað Ólafsfirðingum, Dalvíkingum, Ströndungum, Hörgdælingum, Arnarneshreppskrökkum, Eyfirðingum, Svalbarðsströnd og einum frá Grenivík. Krakkarnir vinna sem eitt lið og einn maður. Þjálfari liðsins er Ari H. Jósavinsson, sem hefur í mörg ár unnið af miklum krafti við uppbyggingu á frjálsíþróttastarfinu hjá UMSE.

Á myndinni má sjá lið UMSE í flokki 11 ára stelpna, sem varð stigahæsta félagið í flokknum og því Íslandsmeistarar í honum. Á fánanum halda Máni og fyrirliðinn Þorsteinn Ægir. Aðrir frá vinstri: Aþena Marey Dalvík, Lotta Karen Svalbarðsströnd, Júlíana Björk Dalvík, Þóra Björk Smáranum, Erla Marí Ólafsfirði og Sigrún Sunna Smáranum.