Umhverfisdagur í Þelamerkurskóla

Það er mikið líf í Þelamerkurskóla þessa síðustu daga skólaársins. Í dag fimmtudaginn 26. maí er umhverfisdagurinn. Dagurinn er nýttur til að fegra og fræðast um umhverfi skólans. Nemendum er skipt í fjórar stöðvar.

 

Á gróðursetningarstöðinni verða plöntur úr uppeldsstöð plantna útiskólans og sólberjarunnar gróðursettir víðs vegar í nágrenni skólans.

Á umhverfisstöðinni verða búin til skilti til að setja á bílastæðið þar sem ökumenn eru beðnir um að drepa á bílnum. Á þessari stöð verða einnig búnar til fræðandi áminningar um vatns- og rafmagnsnotkun. Þeim áminningum verður komið fyrir við vaska og slökkvara í skólanum. Einnig munu nemendur á þessari stöð búa til fræðandi efni um markverða staði í Hörgársveit. Það efni verður til sýnis á vorhátíðinni og/eða skólaslitunum.

Á stöðinni niðri við Hörgá vinna nemendur ýmis verkefni tengd vatni og lífverunum sem þar lifa. Einnig búa þeir til flöskuskeyti og reyna sig í að fleyta kerlingar yfir ána.

Á síðustu stöðinni, afmælistréð búa nemendur til listaverk með nöfnum sínum, heimilsfangi og afmælisdegi. Verkinu verður komið fyrir framan við mötuneytið svo allir geti virt það fyrir sér og fundið út hvar hver og einn á heima og afmælisdag hans.

 

Á morgun, föstudaginn 27. maí verða nemendur á náttúruslóð, mánudaginn 30. maí er fjöruferð að Gásum og þriðjudaginn 31. maí eru hinir árlegu Þelamerkurleikar og 1. júní er vorhátíð skólans sem fer fram niðri í íþróttahúsi og á skólalóðinni.