Um ofanflóð í Öxnadal

Út er komin viðamikil greinargerð frá Veðurstofu Íslands um ofanflóð, þ.e. snjóflóð og skriðuföll, á fyrirhugaðri raflínuleið milli Akureyrar og Blöndustöðvar. Leiðin liggur í gegnum Hörgárbyggð og því er í greinargerðinni miklar upplýsingar um ofanflóð í sveitarfélaginu.

Rakin er snjóflóða- og skriðufallasaga Öxnadals og næsta nágrennis að vestan og austan. Allar skráningar voru kannaðar og rætt við staðkunnuga heimamenn og starfsmenn Vegagerðarinnar og RARIK sem búa yfir upplýsingum um flóðin.

Snjóflóð hafa alloft ógnað og skemmt raflínur og símalínur í Öxnadal og á Öxnadalsheiði. Í Öxnadalnum sjálfum hafa snjóflóð oftast fallið á raflínuna úr Klofagili í Landafjalli, Miðskriðugili í Fagranesfjalli og Illagili í Gloppufjalli. Uppi á Öxnadalsheiði frá Bakkaselsbrekku að Grjótá er um fjögur gil að ræða þar sem snjóflóð hafa nokkrum sinnum fallið yfir veg. Engar heimildir eru um stór snjóflóð á Þelamörk.

Umtalsverð skriðuhætta er á þremur svæðum á línuleiðinni um Öxnadal og Öxnadalsheiði, 1) á heiðinni milli Skógarhlíðar og austur fyrir Klif, 2) frá því undir miðju Gloppufjalli og norður að Geirhildargörðum, 3) undir Landafjalli frá Steinsstöðum út fyrir Miðland.