Trjásafn á Hrauni

Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf. og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér samstarfssamning um að koma upp trjásafni (arboretum) í afgirtum garði umhverfis íbúðarhúsið að Hrauni í Öxnadal.  Í trjásafninu verða gróðursett eintök af öllum íslensku trjám og runnum sem þar geta þrifist.  Auk þess verður stofnað til skógræktar í heimalandi Hrauns á þeim hluta jarðarinnar sem er utan fólkvangsins, Jónasarvangs, sem opnaður var 2007. Verður þess sérstaklega gætt að allur trjágróður lagi sig að landinu.

Stefnt er að því að á Hrauni vaxi upp sem flestar trjátegundir og runnar sem þrifist geta á svæðinu. Tré og runnar verða merkt til þess að gestir og gangandi geti fræðst um trjágóður á Íslandi.  Einnig verður skólahópum og öðrum, sem þess óska, gefinn kostur á kynningu og leiðsögn um svæðið.