Tilkynning vegna slæms veðurútlits

Vegna slæmrar veðurspár, sem gerir jafnvel ráð fyrir norðan stórhríð frá og með föstudeginum 30. ágúst nk. vill sveitarstjórn og fjallskilanefnd vekja athygli á að í 11. grein Fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð er meðal annars eftirfarandi ákvæði: „Frá 15. júní til 1. september eru smalanir eða annað það er ónæði veldur afréttarpeningi óheimilar, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.“

 

Sveitarstjórn og fjallskilanefnd gera kunnugt að umrætt leyfi er veitt frá og með 27. ágúst 2013 fyrir allar afréttir og ógirt heimalönd í Hörgársveit. Gangnastjórar og bændur hver á sínu gangnasvæði er hvattir til að fylgjast með veðurspá og gera þær ráðstafanir sem þeir telja nauðsynlegar til að bjarga sauðfé og öðrum búsmala frá yfir vofandi illviðri, ef spá breytist ekki til hins betra.

 

Það er mat sveitarstjórnar og fjallskilanefndar að ekki sé hægt að koma á lögbundnum göngum með svo stuttum fyrirvara, því er það lagt í hendur fjáreigenda á hverjum stað hvernig skuli að þessu staðið.