Þelamerkurskóli fær styrk úr Sprotasjóði

Sprotasjóður Menningar- og menntamálaráðuneytisins veitti Þelamerkurskóla hálfa milljón króna í styrk vegna verkefnisins „Heilsueflandi grunnskóli“. Ferðafélagið Hörgur, Ferðafélag Akureyrar, Líkamsræktin Bjarg og Rauði kross Íslands á Akureyri eru samstarfsaðilar skólans í þessu verkefni.

Púl er kúl er verkefni sem áformað er að vinna í samstarfi við líkamsræktarstöð á Akureyri. Það á að vera valnámskeið fyrir nemendur 8.-10. bekkjar þar sem þeim er kennt á möguleika stöðvarinnar til að stunda líkamsrækt og borða hollan mat. Markmiðið er að nemendur geti eftir námskeiðið séð um sig sjálfir á líkamsræktarstöð.

Skyndihjálp í grunnskóla á að vinna í samstarfi við Rauða krossinn og úr því er áformað að verði áætlun skólans í kennslu skyndhjálpar fyrir alla nemendur skólans.

Göngum, göngum er verkefni sem verður unnið með Ferðafélaginu Hörgi og Ferðafélagi Akureyrar. Úr því eiga að verða til leiðalýsingar og fræðsla um 10 gönguleiðir í nágrenni skólans. Þannig er stefnt að því að þegar nemandi hefur verið í Þelamerkurskóla í 10 ár hafi hann gengið þessar 10 gönguleiðir og þekki helstu kennileiti í sveitinni.