Sverðaglamur, langskip & brennisteinn

Þung högg eldsmiðsins og  háreysti kaupmanna í bakgrunni ásamt sverðaglamri kappsfullra fornmanna blandast hlátrasköllum barna  á Miðaldadögum á Gásum í Eyjafirði 16.-19. júlí. Þetta er hluti af þeirri miðaldamynd sem gestir geta upplifað þar.  Á Miðaldadögum færist líf í Gásakaupstað sem var forn verslunarstaður á miðöldum.

Handverksfólk, íklætt miðaldaklæðnaði, vinnur að leður- og vattarsaumi, jurtalitun, reipisgerð, tálgun í tré, spjaldvefnaði, boga- og örvagerð svo eitthvað sé nefnt. Gert verður til kola í fyrsta skipti í Hörgársveit í 200 ár og brennisteinn, sem var mjög mikilvæg útflutningsvara á miðöldum,  verður hreinsaður rétt eins og þá var gert.  Brugðið verður á leik þar sem vafasöm verslun leikur stórt hlutverk í örleikþætti sem byggir á fólki og atburðum sem tengjast staðnum og leikinn verður knattleikur líkt og hinir fornu kappar léku með knatttré og bolta.  Miðaldamenn munu sýna réttu handtökin en áhugasömum gestum gefinn kostur að taka þátt og sýna hvað í þeim býr í þessum forna leik.   Fyrir þá sem skyggnast vilja inní framtíðina er bent á Völvuna sem spáir í rúnir og börn á öllum aldri geta reynt sig við bogfimi og steinakast.  Auk þess sem börnin geta kynnst spennusögunni Gásagátunni í sögustund með  rithöfundinum Brynhildi Þórarinsdóttur. 


Ljúfir tónar óma og lokkandi matarilmur úr súpupotti Laxdalshúss berast frá Gásakaupstað um héraðið.  Þessi mynd skapar rétta umhverfið fyrir Langskipið Véstein frá Þingeyri sem sigla mun þöndum seglum að Gásum laugardaginn 16. júlí. Það er í fyrsta skipti síðan á 16. öld  sem skip kemur að Gásum. Hægt að fara í siglingu en svo heldur Vésteinn leið sinni áfram á Sail Húsavík í lok dags.

Á Miðaldadögum verður leiðsögn um minjasvæðið sem varðveitir hinn forna verslunarstað á Gásum.  Leiðsögumenn: Herdís S. Gunnlaugsdóttir og  Sigrún B. Óladóttir 

Gásverjar, þátttakendur á Gásum, verða um 100 manns. Flestir þeirra eru Eyfirðingar, handverksfólk með óbilandi áhuga á tímabilinu og þessum merka sögustað,  auk þess sem handverksfólk  frá Akranesi, Hafnarfirði, Reykjavík og Þingeyri munu einnig taka þátt.


Miðaldadagar á Gásum 16. – 19. júlí kl 11-17
Gásir í Eyjafirði eru 11 km norðan við Akureyri
Nánari upplýsingar má finna á www.gasir.is –

Það eru Gásakaupstaður ses, Minjasafnið á Akureyri og Handraðinn – miðaldahópur sem standa að Miðaldadögum 2011.