Styrktarsýning á Melum

Á fimmtudaginn, 26. mars, verður leikritið „Stundum og stundum ekki“ sýnt á Melum til styrktar Krabba­meinsfélagi Akureyrar og nágrennis til minningar um Hólmfríði Helgadóttur sem lést langt um aldur fram þann 18. desember síðast­liðinn eftir langa baráttu við krabbamein. Eins og alltaf í tilfellum sem þessum vonuðu allir að henni tækist að yfirbuga óvininn. Sjálf hafði hún á því óbilandi trú og sýndi kjark, þrek og æðruleysi til hinstu stundar.

Hólmfríður var fædd 15. mars 1960 og var því aðeins 48 ára er hún lést. Hún lét félagsmál sig mikið varða. Strax og hún tengdist í Hörgárdalinn gekk hún í ungmennafélagið og kvenfélagið. Þá starfaði hún einnig innan verkalýðsfélagsins Einingar og Framsóknarflokksins.

Innan ungmennafélagsins var það ekki síst leikstarfið sem Hólmfríður kom að og átti hún m.a. sæti í leiknefnd félagsins. Síðar þegar Leikfélag Hörgdæla var stofnað sat hún í varastjórn og stjórn þess um nokkurra ára skeið. Hún kom á einn eða annan hátt að flestum uppsetningum félagsins og var fulltrúi þess á mörgum þingum Bandalags íslenskra leikfélaga. Leikfélag Hörgdæla vill þakka það góða starf með því að tileinka henni sýningu á „Stundum og stundum ekki“ þann 26. mars nk. þar sem öll innkoma gengur til Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.

Strax að lokinni sýningu mun fulltrúar Leikfélags Hörgdæla afhenda Krabba­meinsfélagi Akureyrar og nágrennis innkomuna.