Söfnun fyrir UNICEF

Þann 23. apríl næstkomandi mun Þelamerkurskóli taka þátt í verkefni í samvinnu við UNICEF-hreyfinguna á Íslandi. Í því felst að nemendur fræðast um jafnaldra sína í öðrum heimshlutum og safna fé fyrir þurfandi börn um allan heim með því að stunda holla hreyfingu.

Í fræðsluefninu er sagt frá lífi barna í þróunarlöndum, gleði þeirra og sorgum. Til að hjálpa nemendunum að fá útrás fyrir skoðanir sínar á kröppum kjörum þessara jafnaldra sinna, skipuleggur skólinn íþróttadag þann 23. apríl þar sem nemendum gefst kostur á að leggja sitt af mörkum til að bæta líf þurfandi barna.

Takmark þeirra sem taka þátt í íþróttadeginum er að safna eins mörgum límmiðum og þeir geta í svokallað „apakver" með því að hreyfa sig (ganga, hlaupa, valhoppa, o.s.frv.). Skólinn ákveður vegalengdina sem farin er, en miðað er við að börnin fái einn límmiða hvern hring sem þau hlaupa á íþróttavellinum.

Fyrir viðburðinn safna nemendur styrktaraðilum úr hópi sinna nánustu sem heita ákveðinni upphæð á nemandann fyrir hvern hring á íþróttavellinum. Nemendur geta að sjálfsögðu tekið þátt án þess að nokkur heiti á þá. Markmiðið er að sem flestir taki þátt!

Söfnunarféð rennur í alþjóðlegan sjóð UNICEF, sem nýtir fjármunina þar sem þörfin er mest hverju sinni.

UNICEF hefur verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í rúm 60 ár og starfar að langtíma þróunarverkefnum í 157 löndum og svæðum.

UNICEF er sjálfstæð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem rekur starfsemi sína eingöngu á frjálsum framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og ríkisstjórnum.

Skipuleggjendur og umsjónarmenn íþróttadagsins eru íþróttakennarar Þelamerkurskóla, Inga S. Matthíasdóttir og Elva Dögg Grímsdóttir.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er hægt að skoða með því að smella hér.