Skriða í Skriðu

Í morgun féll aurskriða skammt sunnan við Skriðu í Hörgárdal. Aurskriðan tók í sundur tvær girðingar, fjallsgirðingu og 100 m kafla af girðingu við veginn. Hún fór líka yfir tæplega 2 hektara stórt ræktunarland, svo að tjónið er talsvert. Vegurinn milli Skriðu og Lönguhlíðar var lokaður í nokkra klukkutíma.

Í gær flæddi vatn inn á gólf í sláturhúsi B. Jensen, þegar klakastífla myndaðist í Lóninu og áin fór yfir veginn hjá Lóni. Þá hreif vatnsflaumurinn með sér göngubrú sem gerð hafði verið yfir ána.