Samkoma á Möðruvöllum

Í gær var samverukvöldstund á Möðruvöllum vegna kalskemmda í kjölfar hins langa veturs og heylítils sumars þar á undan. Bjarni Guðleifsson reifaði fyrri kalár með gamansömum hætti, Doddi í Þríhyrningi rifjaði upp störf sín sem forðagæslumaður, sagði frá þeim aðferðum sem beitt var þegar tún kól fyrir hálfri öld og fór yfir sjúkrasögu nokkurra þeirra sem lágu með honum á deild í aðgerð sem hann fór í nýlega. Gestum þóttu sjúkrahússögurnar hin besta skemmtun, hversu alvarlegar sem þær nú annars kunna að vera. Sr. Sunna Dóra flutti hugvekju, Stefán í Fagraskógi fór með ljóð og Snorri Guðvarðarson klykkti út með því að fá alla til að syngja með sér jólalag við nýtt lag - og það um hásumar. Eftir dagskrána var kaffispjall í Leikhúsinu. Mæting var með ágætum og heppnaðist dagskráin afar vel.