Pappír, fernur, bylgjupappi og heyrúlluplast til endurvinnslu

Frá í byrjun febrúar sl. hefur staðið yfir tilraun í Hörgárbyggð með fyrirkomulag á söfnun á pappír, fernum og bylgjupappa til endurvinnslu. Dagblaðapappír o.þ.h. hefur verið safnað í gám sem er á bílastæði Þelamerkurskóla. Fernur og bylgjupappi fara í sinn hvorn stórsekkinn, sem komið er fyrir í skýli við inngang skólans.

Pappírsgámurinn er losaður eftir þörfum af

sorphirðuþjónustuaðila sveitarfélagsins. Söfnunarstöðvargjald umbúða stendur undir kostnaði við losun stórsekkjanna.

Tilraunin hefur gengið vel, gámurinn hefur verið losaður einu sinni og stórsekkirnir nokkrum sinnum. Með aukinni kynningu mun enn meira af þessu hráefni til endurvinnslu koma úr Hörgárbyggð.

Heyrúlluplasti (baggaplasti) hefur verið safnað markvisst undanfarin ár í sveitarfélaginu eins og víðar í héraðinu. Söfnunarhlutfallið hjá bændum í Hörgárbyggð er orðið mjög hátt.

Langmesta magn úrgangs frá einum aðila í Hörgárbyggð er frá sláturhúsi B. Jensen ehf. Fyrirtækið er hluthafi í Moltu ehf., sem er undirbúningsfélag vegna byggingar jarðgerðarstöðvar í Eyjafirði, og þangað mun allur sláturúrgangur fyrirtækisins fara þegar stöðin er tilbúin.