Ónýtar rafhlöður í endurvinnslu

Rafhlöður eiga ekki að fara í ruslið heldur á að skila þeim til úrvinnslu. Það er í raun sáraeinfalt. Hægt er að skila inn ónýtum rafhlöðum til Endurvinnslunnar á Akureyri og í sérstök ílát á bensínstöðvum, m.a. hjá Olís. Á vef Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is, er hægt að finna spurningar og svör um rafhlöður, innihald þeirra, flokkun og áhrif spilliefna á umhverfið.

Rafhlöðum er fargað eða eytt á viðurkenndan hátt hjá aðilum sem hafa starfsleyfi til þess. Rafhlöðurnar eru fluttar til Endurvinnslunnar, Efnamóttökunnar eða Hringrásar þar sem þær eru flokkaðar. Hluti þeirra er urðaður, þ.e. þær sem ekki innihalda spilliefni. Rafhlöður sem innihalda spilliefni eru mjög skaðlegar fólki og umhverfi og eru þær sendar í háhitabrennslu til viðurkennds eyðingaraðila í Danmörku. Þar er hitinn sem myndast við brennsluna nýttur til hvort tveggja framleiðslu rafmagns og hitunar vatns sem er notað til húshitunar hjá sveitarfélaginu Nyborg.

 

Árið 2004 var aðeins 18% rafhlaðna skilað til úrvinnslu og ári seinna, 2005, var hlutfallið komið í 21%. Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð safna 22% landsmanna rafhlöðum til úrvinnslu. Nýleg rafhlöðutilskipun Evrópusambandsins sem verður innleidd á Íslandi innan tíðar kveður á um að skilahlutfall rafhlaðna skuli vera komið í 25% á árinu 2012 og 45% árið 2016. Hér er því verk að vinna.

 

Af þeim 161,5 tonnum rafhlaðna sem flutt voru inn til landsins á árinu 2005 var aðeins rúmlega 37 tonnum skilað. Þetta eru ekki nema 21% af öllum seldum rafhlöðum hér á landi. Þetta þýðir að hvorki meira né minna en rúm 124 tonn af rafhlöðum hafa farið beint í ruslið og því verið urðuð með öðrum úrgangi.