Nýtt hreinsivirki afhent

Fyrr í þessum mánuði afhenti Raf ehf. fráveitu Lónsbakka formlega nýtt hreinsivirki fyrir siturvatn frá rotþró fráveitunnar. Hreinsivirkið byggir á nýrri umhverfisvænni aðferð. Hún felst í því að ósón er framleitt á staðnum með rafgreiningu lofts og því er síðan sprautað í gegnum siturvatnið. Rafgreiningin fer fram í húsi við rotþróna en hreinsunin á siturvatninu gerist í búnaði sem er neðanjarðar. Frá honum er hreinsaða vatnið svo leitt í lokuðu ræsi niður í Lónið. Þessi aðferð byggist á tækniþróun, sem RAF ehf. hefur eflt með stuðningi Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hreinsivirkið á Lónsbakka er því frumgerð.

Í desember 2007 var gerður samningur milli Hörgárbyggðar og fyrirtækisins um uppsetningu hreinsivirkis við rotþróna.

Búnaðurinn var smíðaður á fyrri hluta ársins 2008, settur niður á haustdögum þannig að vinnu við framkvæmdina, fyrir utan minniháttar frágangsvinnu, var lokið í nóvember 2008. Hreinsivirkið var svo tengt og gangsett til reynslu snemma í janúar 2009. Mælingar sýna að þessi aðferð við hreinsun siturvatns frá rotþróm uppfyllir kröfur viðkomandi reglugerðar.

Hreinsivirkið kemur þannig í reynd í staðinn fyrir hefðbundið síubeð við rotþró. Ljóst er að þessi búnaður hentar einkar vel á stöðum þar sem erfitt er eða ógerlegt að koma fyrir síubeðum. Hreinsuninni fylgir engin efnamengun.