Nýr organisti

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hefur verið ráðin organisti í Möðruvallasókn.  Hún tekur við af Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, sem um margra ára skeið vann afar gott starf með kórnum og fyrir kirkjuna, en hefur flutt búferlum úr héraðinu. Sigrún Magna er boðin velkomin og er vænst mikils af störfum hennar.

Kirkjukórinn syngur við allar almennar messur í sókninni og á aðventukvöldum. Auk þess hefur hann haldið tónleika m.a. í samstarfi við Samkór Svarfdæla, nú síðast jólatónleika í Bergi á Dalvík og á Melum í Hörgárdal. Auk þess hefur kórinn sungið á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, í Seli, á dvalarheimilinu Hlíð,  í Kjarnalundi og Kristnesi.

Á síðasta ári komu nýir meðhjálparar til starfa í Möðruvallakirkju.  Það eru þær Jónína Garðarsdóttir, Litlu-Brekku, og Sigríður Guðmundsdóttir, Þríhyrningi. Þær tóku við af Mörtu Gestsdóttur frá Þríhyrningi. Sóknarprestur er sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir.