Möðruvellir og menningartengd ferðaþjónusta

Fimmtudagskvöldið 9. nóvember sl. hélt Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, fyrirlestur að Möðruvöllum um tækifæri og áskoranir í uppbyggingu ferðaþjónustu í kringum sögu, helgi og arfleið staðarins. Fyrirlesturinn var einn fjögurra í röð fyrirlestra sem minnast 150 ára afmælis Möðruvallarkirkju. Í erindi sínu gekk Edward útfrá spurningunni hvernig Möðruvellir geti verið miðlægur aðili í Hörgársveit sem tengir við aðra áhugaverða staði í sveitinni jafnframt því sem Möðruvellir eru áhugaverður staður einn og sér?

 

Edward byrjaði á framsögu um ferðamál og grunn atriði sem hafa þarf í huga við uppbyggingu áfangastaða og vöruvæðingar í þágu ferðaþjónustu. Þar er í mörg horn að líta þegar tryggja þarf aðgengi, skapa aðdráttarafl og búa til afþreyingu þar um kring. Áskoranir eru nokkrar og með fjölda dæma af sambærilegum þróunarverkefnum víða um land, fyrr og síðar, beindi Edward athygli fundargesta að því hvar tækifærin lágu en jafnframt hvar skóinn kreppir.

 

Að framsögu lokinni spruttu nokkrar umræður. Fundargestir röktu þær áætlanir og stefnur sem fyrir lágu um uppbygginga ferðaþjónustu og einstakra áfangastaða í sveitinni. Núverandi ferðaþjónusta var kortlögð með ýmsum dæmum, og ljóst að næg gerjun er að eiga sér stað meðal íbúa um þjónustu og afþreyingu fyrir gesti. Einnig var farið yfir ýmsar hugmyndir sem uppi voru um framtíð ferðaþjónustu en ljóst er einnig að sagan drýpur af hverju strái í Hörgársveit og mergð skálda og fræðafólks sem gera má skil samhliða náttúru og sögu upplifun. Uppúr stóðu þrír stórir seglar sveitarfélagsins, það er Gásakaupstaður, Möðruvellir og Hraun í Öxnadal. Áhugi fundargesta stóð til þess að fá þessi þrjú verkefni til að vinna saman og bæta hvort annað upp til að geta prjónað afþreyingu og þjónustu þar við.

 

Niðurstaða fundarins var að virkja ferðamálasamtök fyrir sveitina sem drög voru lögð að á fundi vorið 2016. Verkefni þeirra væri að ná samhljóm meðal þeirra sem hafa hag af ferðaþjónustu og annarra áhugasamra þar um, hvaða verkefni skyldi hafa forgang í áherslum og hver framtíðarsýn ferðaþjónustu í Hörgársveit væri.