Miðaldadagar árið 1317!

Hvernig væri að bregða sér til miðalda? Kannski til ársins 1317? Það er hægt á Gásum í Hörgársveit á Miðaldadögum 14. til 16. júlí. Gásir er einn helsti verslunarstaður á Norðurlandi á miðöldum frá c.a 1100-1600. Hvergi eru varðveittar jafnmiklar mannvistarleifar frá verslunarstað frá þessum tíma. Árlega færist líf og fjör á verslunarstaðinn sem er endurskapaður á tilgátusvæði með tilheyrandi miðaldamannlífi. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2003. Í fyrstu voru þar 3 konur í einu tjaldi en í ár verða þar um 90 Gásverjar við leik og störf og búist er við um 2000 gestum.

Á Miðaldadögum gefst tækifæri til að upplifa fortíðina og verslunarstaðinn á blómatíma hans, hitta Gásverja, kynnast handverki og daglegum störfum jafnvel fá að prófa eitt og annað.Boðið er upp á leiðsagnir um forleifasvæðið þrisvar á dag, Vandræðaskáld verða ekki með vandræði heldur leikrænar sögustundir. Það slær hins vegar reglulega í brýnu milli bardagamanna Rimmugígs og meðlimir Handraðans bregða einnig á með leik og söng. Gapastokkurinn verður óspart nýttur fyrir glæpamanninn og gefst gestum tækifæri til að grýta hann með eggjum. Þó ekki fúlum þó hann verði fúll.

Auk viðburðanna verða fjölmargir handverksmenn að störfum og tónlistarfólk glæðir svæðið lífi í takt við leikþætti og taktfastan slátt eldsmiða. Annálaritari Gása hanterar skinn og saman búa gestir og Gásverjar til nýjan kafla í annál þessarar skemmtilegu fortíðarhátíð.

Þú hefur heyrt um 2 fyrir 1 en hvað með 3 fyrir 1? Aðgangsnistið gildir nefnilega í alla þrjá miðaldadagana sem eru 14.-16. júlí frá kl. 11-17.

Nánari upplýsingar á www.gasir.is og á facebooksíðu miðaldadaga á Gásum.

Eigum fyrirliggjandi glás af myndefni frá fyrri hátíðum til notkunar á prenti en það þykir rýrt til útvarps.