Messa í kirkjutóftinni á Gásum 8. júlí

Minjasafnið á Akureyri í samstarfi við Möðruvallaklausturskirkju stendur fyrir messu í kirkjutóftinni á Gásum 8. júlí, íslenska safnadaginn, kl 11. Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur, mun messa og félagar úr kirkjukórnum leiða fjöldasöng með undirleik.

Gásir var mesti kaupstaður Norðurlands á miðöldum allt fram á 16. öld og í raun Glerártorg eða Kringla þess tíma þar sem menn söfnuðust saman til að láta sjá sig og sjá aðra, fara utan og taka á móti þeim sem voru að koma til landsins. Messugestum gefst kostur á því að ganga um hinn forna verslunarstað eftir athöfnina í fylgd með verkefnisstjóra Gásaverkefnisins, Kristínu Sóleyju Björnsdóttur.