Menningar- og atvinnumálafulltrúi

Í byrjun vikunnar kom Skúli Gautason til starfa sem menningar- og atvinnumálafulltrúi í Hörgársveit. Um er að ræða nýtt starf sem stofnað var til í tengslum við sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar á síðasta ári. Hlutverk menningar- og atvinnumálafulltrúans verður að vera tengiliður sveitarfélagsins við alla menningartengda starfsemi á svæðinu, vinna að stefnumótun á sviði menningarmála, atvinnumála og tómstundamála í sveitarfélaginu o.fl. Þessi verkefni eru margþætt í sveitarfélaginu. Í því eru m.a. fjögur fyrirtæki sem ætlað er að gera sérstaklega út á menningartengda starfsemi, þ.e. Amtmannssetrið á Möðruvöllum ses., Gásakaupstaður ses., Hraun í Öxnadal ehf. og Verksmiðjan, sem er menningarmiðstöð á Hjalteyri. Auk eru nokkur mjög virk félög í sveitarfélaginu, sem líka koma inn í þessa mynd.

Skúli er boðinn velkominn til starfa og er mikils vænst af framlagi hans til að stuðla að öflugu menningarlífi og atvinnulífi í sveitarfélaginu.