Lömbin koma í heiminn

Sauðburður er í fullum gangi. Í Stóra-Dunhaga er sauðburður rúmlega hálfnaður. Leikskólabörn og fleiri hópar hafa komið þangað að undanförnu til að skoða lömbin og fá að fara á hestbak. Stóri-Dunhagi er þáttakandi í verkefni sem nefnist Opinn landbúnaður, en með því gefst almenningi tækifæri á að heimsækja bóndabæi og kynna sér þau störf sem unnin eru í sveitum landsins.

Þegar ljósmyndara bar að garði voru börn úr leikskólanum Naustatjörn á Akureyri að skoða lömbin. Nokkrum þeirra fannst einkennilegt að lömbin vildu ekki gras sem var sérstaklega handreytt handa þeim, en lömbin voru jú aðeins dagsgömul og vildu helst mjólkina úr mæðrum sínum.