Leiðarþing í Hlíðarbæ

Næsta laugardag, 12. október kl. 11-16, stendur Menningarráð Eyþings fyrir Leiðarþingi í Hlíðarbæ. Markmið með Leiðarþinginu er að leiða saman fólk og hugmyndir á forsendum sköpunar.

Fólk sem tengist menningarstarfi á starfssvæði Menningarráðs Eyþings hefur kallað eftir vettvangi þar sem hægt er að kynnst áhugaverðum hugmyndum og skiptast á skoðunum um menningarmál á svæðinu. Þingið er liður í að koma á slíkum vettvangi.  

Leiðarþingið hefst á fjölbreyttum erindum. Framsögumenn eru Sigrún Björk JakobsdóttirKarítas H. Gunnarsdóttir, Pétur HalldórssonGuðmundur Oddur Magnússon og Skúli Sæland.

Í upphafi þings mun Sigrún Björk Jakobsdóttir líta um öxl en hún var fyrsti formaður Menningarráðs Eyþings. Karítas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri menningarmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu byggir erindi sitt á nýrri matskýrslu um menningarsamninga landsbyggðarinnar,  jafnframt kallar hún eftir skoðunum  þinggesta um hvernig þeir sjái fyrir sér menningarsamninga framtíðarinnar.

Pétur Halldórsson framkvæmdastjóri Barokksmiðju Hólastiftis hefur komið að fjölmörgum verkefnum á svæðinu og mun hann miðla með þinggestum þvíhvernig hann hugsar út fyrir kassann þegar kemur að þróun hugmynda.  Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands fjallar um hvernig hugmyndir verða að veruleika. Skúli Sæland, formaður menningarklasans Upplit sem starfræktur er í uppsveitum Árnessýslu, kynnir hugmyndafræðina að baki Upplits og segir frá fyrstu árum starfseminnar.

Að erindum loknum mun Þórgnýr Dýrfjörð stýra hraðstefnumóti hugmynda, þar gefst þinggestum tækifæri til að miðla hugmyndum, leita eftir samstarfsaðilum og kynnast fjölbreyttum verkefnum. Að lokum taka gestir þátt í vinnustofu þar sem velt verður upp spurningum um nútíð og framtíð menningarmála á svæðinu.

Þingið er þátttakendum að kostnaðarlausu en óskað er eftir að þátttakendur skrái þátttöku á netfangið menning@eything.is. Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi Eyþings í síma 464 9935