Laufey frá Öxnhóli tekur á því

Hörgárbyggð átti fulltrúa á bikarmóti Alþjóðasambands líkamsræktarfólks í fitness í Háskólabíói fyrir skömmu. Það er Laufey Hreiðarsdóttir.  Á mótinu var hart barist, en hún náði þeim frábæra árangri að verða í 5. sæti í flokki kvenna yfir 163 cm. Hún lét ekki þar við sitja, heldur landaði styrktarsamningi við Fitnesssport daginn eftir. Fitnesssport er eitt stærsta fyrirtækið á markaðinum með fæðubótarefni og íþróttafatnað. Þjálfari Laufeyjar er fitnesskappinn Björn Þór Sigurbjörnsson.

Nú eru hafnar stífar æfingar og mataræði fyrir Íslandsmótið um páskana 2009. Laufey varð í 4.-6. sæti í sterkasta flokknum á síðasta móti og ætlar að bæta árangur sinn á næstu mótum. Ekki verður slakað á yfir jólahátíðina í mat eða æfingum, borðað verður með heimiliskettinum fisk, kjúkling og túnfisk (meðan aðrir sjá um jólasteikurnar). Æft verður milli fjós- og fjárhúsverka. Laufey er dóttir Hreiðars Aðalsteinssonar og Guðnýjar Franklín ábúenda á Öxnhóli í Hörgárdal.