Keppendur Smárans stóðu sig vel fyrir sunnan um helgina

Á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni í Reykjavík á laugardaginn átti UMSE 22 keppendur og bættu 19 þeirra sinn persónulega árangur. Þar á meðal var Guðlaug Jana Sigurðardóttir, Umf. Smáranum, sem varð önnur í 800 m hlaupi í flokki 13-14 ára telpna og stórbætti sinn árangur. Þetta voru fyrstu verðlaun hennar á stórmóti. Daginn eftir voru Reykjavíkurleikarnir í frjálsum haldnir á sama stað og þangað var boðið einum keppanda frá UMSE. Það var Steinunn Erla Davíðsdóttir, Umf. Smáranum. Hún tók þátt í 800 m hlaupi í flokki 13-14 ára telpna, tók bronsverðlaunin og bætti fyrri árangur sinn verulega.