Jónasarlaug ljóðskrýdd

Jónasarlaug hefur opnað aftur eftir lagfæringar á bökkum laugarinnar. Þar hafði komið fram galli á flísalögn sem olli því að flísarnar losnuðu og skriðu fram. Nú skartar laugin sínu fegursta og hefur verið skrýdd ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Ljóðin eru prentuð á glerveggi laugarinnar þannig að hægt er að horfa á náttúruna í gegnum ljóð Jónasar.

Ljóðin voru afhjúpuð á afmæli sveitarfélagsins, 12. júní. Við það tilefni lásu félagar úr Leikfélagi Hörgdæla ljóð eftir Jónas í heita pottinum.