Jarðhitarannsóknir á Laugareyri

Út er komin skýrsla um jarðhita og berglög við Laugareyri í Hörgárdal, sem er jarðhitastaður á eyrum Hörgár um 5 km innan við Staðarbakka sem er innsti bær í byggð í dalnum. Heitt vatn kemur upp á nokkrum stöðum á eyrinni. Hiti hefur mælst hæst um og yfir 50°C á áreyrinni og er víða um og yfir 30°C í jarðvegi. Meðal niðurstaðna skýrslunnar eru:

1) Jarðlögin eru líklega um 9,5 milljón ára gömul.

2) Jarðlagastaflinn virðist heillegur og lítt brotinn, berggangar, sprungur og smá misgengi skera þó staflann hér og hvar.

3) Segulmælingar benda til þess að undir eyrinni séu tveir berggangar.

4) Hitamælingar í jarðvegi sýna að mesti hitinn er ofan og rétt austan við berggangana. Því er dregin sú ályktun að jarðhitastreymið sé tengt þeim.

5) Æskilegt væri að bæta við segulmælingum í Hörgárdal, sérstaklega sunnan og austan við Laugareyri. Slíkar mælingar geta gefið mikilvægar viðbótarupplýsingar og eru til þess að gera ódýrar rannsóknir miðað við t.d. borun grunnra rannsóknarholna. Áður en til þess kemur að staðsetja djúpa rannsóknarholu, sem gæti jafnframt orðið vinnsluhola, ef hún heppnast, þarf að bora nokkrar könnunarholur í innanverðum dalnum til að m.a. kanna nákvæmlega hitadreifingu í berggrunninum.

6) Margt bendir til þess að kerfishiti sé talsvert yfir þeim rúmlega 50°C hita sem hæst hefur mælst við yfirborð.