Íslenski safnadagurinn á sunnudag

Íslenski safnadagurinn er næstkomandi sunnudag þann 7. júlí. Söfn um allt land taka þátt með einum eða öðrum hætti þátt í deginum.

Minjasafnið á Akureyri býður uppá leiðsögn kl 14 og 15 þennan dag um sumarsýningu safnsins Norðurljós- næturbirta norðursins.

Minjasafnið og Sjónlistamiðstöðin eru með frítt inn og eftirfarandi söfn í Eyjafirði eru með 2 fyrir 1 af aðgangseyri:

Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi, Akureyri

Hús Hákarla –Jörundar, Hrísey

Mótorhjólasafn Íslands, Akureyri

Byggðasafnið Hvoll, Dalvík

Náttúrusetrið Húsabakka, Svarfaðardal

Útgerðarminjasafnið á Grenivík

Iðnaðarsafnið á Akureyri

Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Eyjafjarðarsveit

Sýning Minjasafnsins, Norðurljós- næturbirta norðursins samanstendur af málverkum og ljósmyndum. Málverkin eru eftir danska málarann Harald Moltke.  Hann var í hópi vísindamanna frá  dönsku veðurstofunni sem kom gagngert til Akureyrar 1899 til að rannsaka norðurljósin. Ljósmyndirnar tók áhugaljósmyndarinn Gísli Kristinsson frá Ólafsfirði á síðasta ári.

Í Gamla bænum Laufásiverður boðið uppá leiðsögn um bæinn kl 14. Áhugasamir gestir geta smakkað grasate og starfsfólk Pólarhesta munu teyma undir yngstu gestunum milli kl 14 og 16. Skáldahúsin þrjú á Akureyri Nonnahús. sem tileinkað er barnabókarithöfundinum Jóni Sveinssyni - Nonna, Sigurhæðir, hús þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar og Davíðshús, hús hins ástsæla skálds og rithöfundar Davíðs Stefánssonar, verða opin þennan dag. Benda má á að opnunartími í Davíðshúsi og Sigurhæðum er frá kl 13-17, í Laufási 9-17 og Minjasafninu og Nonnahúsi kl 10-17. Frítt er á þessi söfn í tilefni dagsins. 

 

Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.

Það kennir að venju ýmissa grasa þennan dag á söfnunum í landinu en upplýsingar um dagskrá þeirra má nálgast á facebook síðu íslenska safnadagsins, www.safnmenn.is og www.safnabokin.is.

 

Meðfylgjandi mynd er tekin af ungum áhugasömum gestum á Minjasafninu á Akureyri.