Íbúaþing

Haldinn var sveitarfundur – íbúaþing í Hörgárdal laugardaginn 22. nóvember s.l.  Tilgangur þess var að gefa íbúum sveitarfélagsins betri möguleika á að fylgjast með helstu viðfangsefnum sveitarstjórnar og um leið tækifæri  til að láta skoðanir sínar í ljós á þeim verkefnum svo og á hinum ýmsu málum sem varðar sveitarfélagið og það samfélag sem þar er.

Oddviti sveitarfélagsins, Helgi Steinsson, setti fundinn og stjórnaði honum.  Í byrjun fór sveitarstjóri, Helga A. Erlingsdóttir, yfir helstu verkefni sveitarfélagsins í stórum dráttum og rekstur þess. Þá ræddi hún um samstarf sveitarfélaga um hina ýmsu þætti þjónustu sem sveitarfélögin veita.  Loks kom hún inn á nýjustu hugmyndir hvað varðar átak í sameiningu sveitarfélaga.

Þá var á fundinum rætt um sorpeyðingu og hugsanlegan urðunarstað í sveitarfélaginu fyrir allt sorp Eyfirðinga. Guðmundur Sigvaldason verkefnisstjóri hjá Akureyrarbæ hélt stutt erindi um meðferð á sorpi, reglugerðir varðandi úrgang og endurvinnslu og um fyrirkomulag á urðunarstað.  Fyrir sveitarstjórn liggur  beiðni frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar um leyfi til að rannsaka aðstæður fyrir urðunarstað í Hörgárbyggð og er þá fyrst og fremst horf til Skúta, sem er jörð í eigu hreppsins. Skammt frá Skútum er Laugaland á Þelamörk, þar sem eru hitavatnsvinnslusvæði Norðurorku, grunnskóli og sundlaug.  Einnig eru Vaglir skammt undan, en þar eru kaldavatnslindir.  Þaðan er leitt kalt vatn til Akureyrar.  Skútar eru því í mikilli nálægð við vatnsverndarsvæði.  Þá má geta þess að ábúendur á Grjótgarði, næstu jörð við Skúta eru með stóran hluta af því landi á leigu sem Sorpeyðingin hefur mestan áhuga á.

Sveitarstjórn vildi upplýsa íbúana um gang mála og kanna hug þeirra á því að fá urðunarstað í sveitarfélagið áður en sveitarstjórn tæki afstöðu til málsins. Á íbúaþinginu komu fram mismunandi skoðanir til þessara mála, en engin andstaða var við að leyfa frumathuganir.

Fram kom að menn vildu að aðrir staðir en Skútar yrðu kannaðir til samanburðar, t.d. Bjarnarhóll í Arnarnes­hreppi, sem er skammt frá Hjalteyri og fleiri staðir voru nefndir. Einnig vildu fundarmenn kanna betur hagkvæmni sorpbrennslu.

Sveitarstjórn mun taka afstöðu til beiðni Sorpeyðingar Eyjafjarðar innan tíðar.

Þá var á íbúaþinginu rætt um ferðaþjónustu  og merka staði í Hörgárbyggð.  Guðrún Kristinsdóttir forstöðumaður Minjasafnsins sagði frá uppgreftrinum á Gásum og frá áformum um bætt aðgengi ferðamanna og frekari uppbyggingu á Gásum. Síðast liðið sumar kom margt ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra,  til að skoða uppgröftinn sem er um margt mjög merkilegur.  Nokkrum sinnum yfir sumarið er veitt leiðsögn um svæðið og mun svo verða áfram.  Þá var eina helgi s.l. sumar sett upp sýning á því hvernig fólk sér fyrir sér  Gásakaupstað á sínum tíma og hvernig mannlífið var þar.

Einnig ræddi Guðrún um Hraun í Öxnadal, en um Hraun hefur verið stofnað hlutafélag og eru áform um að þar verði fræðasetur í minningu Jónasar Hallgrímssonar.

Guðrún kom inn á þá miklu möguleika sem eru á menningartengdir ferðaþjónustu á svæðinu, vegna margra merkra sögustaða.

Fundurinn var fámennur en þeir sem komu, tóku virkan þátt í umræðunum og er talin ástæða til að halda svona þing aftur á næsta ári.