Hraun í Öxnadal ehf., fréttatilkynning

HRAUN Í ÖXNADAL EHF

 

FRÉTTATILKYNNING

 

 

FYRSTI JÓNASARFYRIRLESTURINN

 

Fyrsti Jónasarfyrirlesturinn á vegum Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal verður í Amtsbókasafninu á Akureyri á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember n.k.  Fyrir­lesari er Þorvaldur Þorsteinsson, skáld, rithöfundur og mynd­listar­maður, nýkjörinn forseti Bandalags íslenskra listamanna.  Fyrirlesturinn hefst kl. 17:15 og er öllum heimill.

 

Menningarfélagið Hraun í Öxnadal  var stofnað á dánardegi Jónasar Hallgrímssonar 26. maí 2003. Að félaginu standa einstaklingar, félög og stofnanir og skipta hlut­hafar tugum.  Stærstu hluthafar eru Menningarsjóður íslenskra sparisjóða, Spari­sjóður Norðlendinga, KEA og Hörgárbyggð. 

 

Menningarfélagið Hraun í Öxnadalhefur keypt jörðina Hraun í Öxnadal og er nú unnið að því að koma þar á fót minningarstofu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson og fólkvangi í landi Hrauns sem nær yfir Vatns­dalinn með Hraunsvatni, Drangafjall með Hraundranga, Hraunin sunnan og Stapana vestur af bæjarhúsunum.  Í íbúðarhúsinu að Hrauni í Öxnadal verður íbúð fyrir fræðimann og er nú unnið að gagngerum endurbótum á húsinu sem tekið verður í notkun á næsta ári.

 

Fastir liðir á dagskrá Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal er Fífilbrekkuhátíð, sem haldin er á Hrauni í Öxnadal annan sunnudag í júní, gönguferðir um fólkvanginn í landi Hrauns, og Jónasarfyrirlestur, sem haldinn verður á fæðingardegi Jónasar víðs vegar um landið, en Jónas Hallgrímsson, fyrsta nútímaskáld Íslendinga, er skáld allra Íslendinga og gaf þjóðinni nýja mynd af landinu sem búið hefur með henni síðan.  Ekkert íslenskt skáld hefur heldur gefið öðrum listamönnum, bæði rithöfundum, ljóðskáldum, tónskáldum og mynd­listarmönnum, fleiri viðfangsefni að fást við en Jónas Hallgrímsson, auk þess sem hann var frestur í hópi þeirra manna sem börðust fyrir þjóðfrelsi og endurreisn íslenskrar tungu. 

 

Á 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember 2007 verður gefið út mynd­skreytt safn ljóða og smásagna Jónasar og er undirbúningur að útgáfunni þegar hafinn.

 

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

GSM 8 96 96 38