Hörgdælir eignast Íslandsmeistara

Þrjár ungar stúlkur úr Hörgársveit gerðu góða ferð suður nýverið. Þann 7. og 8. maí fór fram í Kaplakrika Íslandsmeistaramót í grunnsporum 2011 og bikarmót í F-flokkum. Þetta er viðamikið mót, 725 manns kepptu í mótinu öllu.
Stúlkurnar heita Brák Jónsdóttir, Katrín Birna Vignisdóttir og Eyrún Þórsdóttir og æfa með Dansdeild Akurs á Akureyri. Þjálfari þeirra er Anna Breiðfjörð.

Þær Brák og Katrín Birna kepptu í flokknum unglingar II B/D, en þar keppa þeir sem eru 14-15 ára. Þær kepptu bæði í latin og standard dönsum. Þær gerðu sér lítið fyrir og unnu latin-dansana og urðu í þriðja sæti í standard-dönsum.

Eyrún keppti í flokknum unglingar II A/D. Hún lenti í 3. sæti í latin-dönsum og 5. sæti í standard-dönsum.

Nánar má fræðast um mótið á vef Danssambands Íslands, dsi.is