Hlaupið og safnað í Þelamerkurskóla

 Unicef-hreyfingin fór fram í blíðskaparveðri við Þelamerkurskóla. Í Unicef-hreyfingunni hljóta nemendur fræðslu um jafnaldra sína í öðrum heimshlutum og safna fé fyrir þurfandi börn um allan heim með því að stunda holla hreyfingu.

Að þessu sinni fólst hreyfingin í því að nemendur fóru í gegnum þrautabraut sem íþróttakennarar skólans settu upp á íþróttavellinum. Í brautinni þurftu nemendur að gera armbeygjur, sippa, skríða undir net og stikla á milli húlahringja og hjólbarða sem lágu á jörðinni. Hver námshópur notaði eina kennslustund til að fara í gegnum brautina. Hver og einn fór eins oft og hann treysti sér til og fékk einn límmiða í apakverið eftir hvern hring.

Eftir gærdaginn innheimta nemendur svo áheitin sem þeir söfnuðu á undanförnum dögum. Miðað við hve vel allir nemendur skólans lögðu sig fram í gær má reikna með að vel hafi safnast í Þelamerkurskóla í þessu góða framtaki Unicef á Íslandi. En nemendur skólans fóru samtals 1374 sinnum í gegnum þrautabrautina.

 

Af vef Þelamerkurskóla. Ljósmyndir Skúli Gautason.