Heyskapur byrjaður í Brakanda

Í fyrradag, 10. júní, voru fyrstu túnin í Hörgárdal slegin. Það voru 7 hektarar af háliðagrasi hjá Viðari bónda í Brakanda. Undanfarið hefur verið þokkaleg sprettutíð svo að væntanlega fer heyskapur í fullan gang hér um sveitir á næstu dögum ef þurrkur verður.

Í Hörgárbyggð eru alls rúmlega 2.000 hektarar af túnum og kornökrum, svo að nokkur handtök eru framundan í sveitarfélaginu við að koma því heyi og korni sem af þeim kemur í hús og plast.