Heimaslóð komin út

Komið er út 8. hefti af ritinu Heimaslóð sem hefur undirtitilinn "Árbók hreppanna í Möðruvallaklaustursprestakalli". Að þessu sinni er ritið að mestu helgað Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum. Birt eru fjögur erindi um Steindór sem flutt voru á hátíð sem haldin var þegar öld var liðin frá fæðingu hans árið 2002.

Einnig eru m.a. birt nokkur bréf sem hann skrifaði feðgunum á Hlöðum, þeim Stefáni Stefánssyni og Halldóri Stefánssyni. Þau eru merk heimild. Stefán Halldórsson á Hlöðum bjó bréfin til prentunar. Loks má nefna að í ritinu eru sjö ljóð eftir Steindór.

Af öðru efni má nefna vísnabálk, grein um byggðaminjar í Barkárdal og annan þátt veraldarsögu Gylfa á Gásum.

Ritnefnd Heimaslóðar skipa Bjarni E. Guðleifsson, Möðruvöllum, og Guðmundur Víkingsson, Garðshorni. Það er sent á öll heimili í Hörgárbyggð og Arnarneshreppi, öðrum er bent á að hafa samband við ritnefndarmenn til að fá það sent.