Haustverkin kalla í Laufási

Laugardaginn 17. október kl 13:30-16:00 verður dagskrá í Gamla bænum í Laufási, sem heitir "Haustverkin kalla". Hefur þú séð hvernig kindahausar eru sviðnir? Hefur þú fylgst með alvöru sláturgerð? Hefur þú smakkað heimagerða kæfu, slátur, kartöflurúgbrauð eða fjallagrasamjólk? Ef ekki þá er tilvalið að leggja leið sína í Gamla bæinn í Laufási á laugardaginn milli kl 13:30 og 16 til þess upplifa gamla tíð með öllum skynfærum. Tóvinnufólk verður að störfum, smalinn Þór Sigurðarson segir sögur og forvitnilegur haustmarkaður með ýmsu góðgæti fyrir munn og maga verður í skálanum. Lummukaffi verður til sölu í Gamla prestshúsinu og þar verður ljúf tónlist leikin af fingrum fram. Dagurinn hefst kl. 13:30 með góðri samverustund í kirkjunni undir stjórn sr. Bolla Péturs Bollasonar.